Bíókerfissöfnun Eskfirðinga gengur framar vonum
Á tæpum tveimur vikum hafa þegar safnast rúmlega 700 þúsund krónur upp í þá eina milljón króna sem félagsskapurinn Vinir Valhallar þurfa til að geta keypt og sett upp flott nýlegt bíókerfi í félagsheimilinu á Eskifirði. Enn eru 20 dagar til stefnu hafi fleiri hug á að styrkja verkefnið.
Ein aðalsprauta hópsins er Kristinn Þór Jónasson sem segist afar ánægður með viðtökur og hjálp þeirra fjölmörgu sem þegar hafa lagt söfnuninni lið. Kerfið allt kostar um fjórar milljónir króna en vilyrði hafa fengist frá fyrirtækjum, sveitarfélaginu og fleirum fyrir um þremur milljónum króna svo einungis vantaði eina milljón þegar söfnunin hófst. Nú vantar herslumun upp á 300 þúsund krónur en söfnunin fer fram á Karolina-Fund.
Bíókerfi þetta mun gera hópnum kleift að sýna allra nýjustu kvikmyndirnar á sama tíma í Valhöll og þær eru sýndar í kvikmyndahúsum höfuðborgarinnar að sögn Kristins.
„Þetta gjörbreytir öllu ef við fáum þetta kerfi og getum boðið upp á nýjasta nýtt í kvikmyndaheiminum á sama tíma og aðrir. Ég er orðinn bjartsýnn á að markmiðið náist og ef það næst í eitthvað aðeins hærri upphæð þá fer sá peningur rakleitt í stærri og betri poppvél í húsið. Það hefur aðeins vafist fyrir sumum hvernig skal styrkja í gegnum Karolina-Fund en fólk má gjarnan hafa samband við okkur strákana ef einhver lendir í vandræðum.“
Gleðipinnarnir í hópnum Vinir Valhallar vilja auka líf og skemmtun í bæjarfélaginu og nágrenni og ein góð leið til þess er að geta boðið upp á glænýjar stórmyndir á stóru tjaldi í góðu hljóðkerfi eftirleiðis. Það er að takast. Mynd Aðsend