Besti tíminn til að fara á kajak er alltaf
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. jún 2025 16:19 • Uppfært 03. jún 2025 16:20
Hjónin, Þorgrímur Kjartansson og Dorota Joanna Burba á Vopnafirði, stofnuðu Saga Kajak í fyrra, um kajakferðir um fjörðinn. Þau heilluðust af kajakróðri og keyptu fjóra kajaka. Þegar fólk fór að spyrja hvort þau gætu farið með það í ferðir á sjónum gerðu þau sér grein fyrir því að kannski væri ekki slæm hugmynd að breyta áhugamálinu í rekstur.
Í fyrstu áttu þau ekki nógu marga kajaka eða nauðsynlegan búnað, en með tímanum óx safnið. Þau keyptu fimm kajaka til viðbótar og geta nú farið með 12 manns út á sjó.
Fyrirtækið hóf starfsemi sína síðsumars 2024. Til þessa hafa heimamenn verið þeirra helstu viðskiptavinir en þau vonast til að laða til sín gesti annars staðar frá, sem og ferðafólk sem kemur til Austurlands á sumrin.
Dorota er upprunalega frá Póllandi, frá bæ nálægt Gdańsk, og hún flutti til Íslands fyrir meira en 25 árum síðan, á eftir eldri systrum sínum. Hún kynntist Þorgrími á Þórshöfn þegar þau unnu bæði hjá Brimi. Þau búa á Vopnafirði í dag, Dorota vinnur í banka og Þorgrímur er framleiðslustjóri hjá Brimi. Þau eiga þrjár dætur, tvær búa nú í Reykjavík og vinna við markaðsmál, en hin 14 ára Aleksandra er enn hjá þeim. Dorota segir stolt að allar dæturnar þrjár séu tvítyngdar.
Fjörðurinn sést frá öðru sjónarhorni á kajak
Dorota segir að það sé mjög mikilvægt fyrir þau að sýna fólki hversu fallegur fjörðurinn er. Að upplifa Vopnafjörð frá sjó er algjörlega öðruvísi en að sjá hann frá landi. „Margir sem búa hér hafa ekki einu sinni séð hlutina frá þessu sjónarhorni. Það gerir gæfumuninn,” segja þau.
Þó að kalt og hráslagalegt veður geti verið letjandi, er alltaf góð hugmynd að fara út á sjó. „Besti tíminn til að fara á kajak er næstum því hvenær sem er! Svo lengi sem það er ekki vindur eða mikil rigning. Sumir halda að það sé best bara á sumrin, en veturnir geta líka verið ótrúlegir! Kajakróður gerir þér kleift að sjá svo marga fallega hluti frá öðru sjónarhorni,” segir hún.
Norðurljósa kajakferðir
Hvað áskoranir varðar sér Þorgrímur ekki hindranir í rekstrinum, aðeins tækifæri. Þetta er eitthvað sem þau njóta til fulls, svo góðir tímar hljóta að vera fram undan. „Það er gott að koma hingað og bara slökkva á sér. Ég slekk ekki á símanum mínum, en ég set hann á þögn, og þá byrja ég að hugsa á allt annan hátt,” segir hann.
„Það er erfitt að lýsa tilfinningunni. Þetta er töfrandi,” bætir Dorota við. „Hvert skipti er jafn töfrandi og það síðasta. Sumrin eru falleg og norðurljósin á veturna eru stórkostleg. Það er fallegt, friðsælt og virkilega sérstakt.”
Í framtíðinni ætla Dorota og Þorgrímur að fara með gesti sína í norðurljósa kajakferðir. Þau segja að það sé stórkostleg upplifun og myndirnar í símum þeirra eru sönnun þess. Algjör kyrrð undir grænlogandi himni.
Mynd: Marko Umicevic
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.