„Ber líklega beinin að Merki“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. okt 2025 11:43 • Uppfært 03. okt 2025 11:47
Stefán Ólason, bóndi og fleira að Merki í Efri-Jökuldal er fæddur þar og uppalinn – og sér ekki fyrir sér að fara neitt. Hann hefur starfað það sem bóndi samhliða því að starfa fyrir Vegagerðina, mest uppi á fjöllum.
Stefán hefur í áratugi unnið hjá Vegagerðinni og hefur það verk að opna helstu hálendavegi á vorin. „Það getur verið töluvert verk að opna þessa vegi marga á hverju vori og dagarnir eru stundum langir enda spottakorn að fara.
En mér hefur alltaf fundist þetta skemmtilegt starf og sjálfur unni ég mér eiginlega ekki betur en á hálendinu einn með sjálfum mér að hefla eða lagfæra. Mér hefur aldrei nokkurn tíma leiðst það, fyrir utan hve stórkostlegt er að vera á þessu svæði umkringdur náttúrufegurð um allt.
Sérstaklega er í uppáhaldi að stoppa í Herðubreiðarlindunum og setjast þar niður á fallegum degi með kaffibrúsa. Útsýnið verður ekki betra og yfirleitt er kyrrðin svo mikil að maður bókstaflega heyrir í flugum langar leiðir. Þessi staður er sá sem mér þykir hvað vænst um á Íslandi, enda er aldeilis magnað að koma hvert ár að þessari grænu gróðurvin mitt í því sem annars er að mestu eyðimörk. Enginn annar staður hefur haft jafn mikil áhrif á mig.
En hvað varðar okkur hér þá finnst mér líklegra en ekki að hér beri ég beinin því enginn er áhuginn á að fara neitt annað,“ segir hann.
Sögulegur kláfur í hættu
Einn merkilegasti minnisvarði um byggðasögu heimasvæðis Stefáns er kláfurinn yfir Jökulsá, sem er í tveggja kílómetra fjarlægð frá bænum. Kláfurinn var lífæð heimilisfólks á Merki allt til ársins 1975 þegar loks var brúað yfir ána. Kláfurinn var gerður upp árið 1996.
„Að vetrarlagi var varla farið yfir ánna nema á kláfnum. Kláfurinn sjálfur er í rauninni góður enn þann dag í dag en vandamálið er að það er að kvarnast úr berginu sem hann er festur við. Kletturinn hérna megin árinnar sýnist mér vera bara að fara. Það hrundi annar stór klettur þarna rétt hjá fyrir tveimur árum, því frostið kemst bak við allt þarna og sprengir niður með tímanum. Ég er því ekki mjög bjartsýnn á að kláfurinn hangi uppi mikið lengur og lítið við þessu að gera í sjálfu sér.
Það er enn þann dag í dag einhver allra versta vinna sem ég hef tekið mér fyrir hendur á lífsleiðinni, að flytja áburðarpoka yfir á kláfinum á sínum tíma. Þá var allur áburður í 50 kílóa pokum og þetta settum við allt ofan í kassann. Svo þegar honum var sleppt þá kom svo mikill slakki að hann steyptist niður á miðjuna. Vinnan við að ná honum aftur upp á brún var hreint ægileg og líður mér aldrei úr minni hvað þetta tók á."
Vertíðarminningar og kynni af Bubba
Þótt Stefán hafi alla tíð unnið mest við vegagerð, dvaldist hann um tíma á vertíð í Vestmannaeyjum. „Það var mjög eftirminnilegur tími að taka þátt í því og afskaplega skemmtilegt að upplifa svona verbúðarstemningu. Þarna voru nokkrir úr Jökuldal og að austan og svo sáraeinfalt að kynnast fullt af öðru fólki. Þarna var mikill þverskurður af þjóðinni allri, alls kyns fígúrur úr öllum geirum og alls staðar að.
Mér er minnisstætt að rekast nokkrum sinnum á ungan, frekar hippalegan mann sem sat einn á gólfinu og lék sér á gítar löngum stundum. Ég kynntist honum ekkert en frétti síðar að hann kallaði sig Bubba. Þetta var einmitt rétt áður en hann gaf út fyrstu plötuna sína, Ísbjarnarblús held ég, árið 1980."
Snjógöng og ævintýri í vegagerð
Eftir áratuga starf í vegagerð hefur Stefán lent í ýmsum ævintýrum, sérstaklega við snjómokstur yfir til Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar.
„Það er sennilega hvað mest eftirsjá hjá mér í dag að ég hafði aldrei vit til þess að taka neinar myndir á þessari vegferð. Ég dauðsé eftir því í dag því fólk í dag myndi ábyggilega ekki trúa mörgu því sem við tókum okkur fyrir hendur á sínum tíma, nema ég gæti sýnt fram á það með myndum.
Ég man glögglega eitt skipti þegar koma þurfti fiski í frystihús Kaupfélagsins á Borgarfirði og við fórum að moka í ofsalegum snjó og nánast í blindbyl. Á eftir okkur voru einhverjir fjórir til fimm Kaupfélagsbílar og við vorum að mestalla nóttina. Snjógöngin sem við gerðum voru svo há að það var varla hægt að nota snjóblásarann því hann náði ekki að dæla snjónum nógu hátt.
Nema hvað að bílstjórarnir fóru að bíða saman í neyðarskýlinu í skarðinu og einn þeirra var Stebbi Tóta, sem tók sig til og bræddi snjó í stórum potti sem þar var og húrraði ofan í hann öllum deildunum [matartegundum] sem fundust í skýlinu.
Þarna var uxahalasúpa, blómkálssúpa, sveppasúpa og einhverjar fleiri súpur en við allir vorum orðnir svo aðframkomnir af þreytu að þetta fannst öllum einhver allra besta súpa sem gerð hafði verið og hún kláraðist upp til agna þessa nótt."
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.