Skip to main content

Barkurinn á Reyðarfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2025 16:12Uppfært 11. ágú 2025 16:15

Utarlega í þéttbýlinu á Reyðarfirði er vinsæl trébryggja. Ferðafólk stoppar til að taka myndir af henni, enda sjást byggðin og fjörðurinn vel þaðan, á meðan heimafólk rennir þar fyrir fisk. Búið er að koma upp upplýsingaskilti um staðinn, sem gengur undir heitinu Barkurinn og er stór þáttur í sögu Reyðarfjarðar.


Samkvæmt Sögu Reyðarfjarðar, eftir Guðmund Magnússon, var það árið 1884 sem norsku bræðurnir, útgerðarmennirnir og kaupmennirnir Otto og Friðrik létu sökkva barkskipi undan Bakkagerðiseyri og reistu bryggju þar ofan á. Það er bryggjan sem í daglegu tali kallast Barkurinn. Enn í dag má sjá stefni skipsins þegar fjara er og lygnt.

Barkskip, eða barkar, voru stór seglskip sem lengi voru notuð til að flytja vörur til og frá Íslandi. Slík skip, sem þjónað höfðu sínum tilgangi, þóttu víða um landið vera ákjósanleg undirstaða fyrir hafnargerð, líkt og gert var á Reyðarfirði.

Bræðurnir byggðu svo upp frekari atvinnustarfsemi á eyrinni sem varð vísirinn að þéttbýlinu í Reyðarfirði. Þótt þeirra veldi liði undir lok tóku aðrir við og Barkurinn varð ein aðal inn- og útflutningshöfn Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs fram eftir 20. öldinni.

Haft Barkinn fyrir augunum alla tíð


GSR var líka með sína fiskverkun á Bakkagerðiseyrinni, í húsinu sem nú hýsir verslun Launafls og Hárstofu Sigríðar. „Ég er að klippa á gömlu kaffistofunni en ég byrjaði að vinna hinu megin við vegginn. Ég segi oft að ég hafi byrjað að vinna í þessu húsi og muni enda starfsferilinn í því líka,“ segir Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir.

„Þegar ég fullorðnaðist fór ég að spá meira í sögunni. Þá gerði ég mér grein fyrir að það voru margir, jafnvel innfæddir Reyðfirðingar, sem kunnu hana ekki. Allir sem komu í stólinn til mín þurftu að hlusta á mig segja hana,“ segir hún.

Vinsæll áningarstaður


Fjarðabyggð byggði nýja trébryggju ofan á Barkinn árið 2010. Sigríður Hrönn þrýsti á sveitarfélagið að koma upp upplýsingaskiltum á bryggjunni um sögu hennar. Skiltin fóru upp í fyrra. „Í Valhöll bjó eldri kona, Guðríður Beck, þegar hún kom til mín var hún alltaf að tala um að það þyrfti upplýsingaskilti. Eftir að hún lést ákvað ég að berjast fyrir því.“

Til viðbótar við skiltin gáfu afkomendur Ingibjargar Þórðardóttur og Bóasar Hallgrímssonar, frá Grímsstöðum í Reyðarfirði, bekk á svæðið. Út um gluggann á vinnustað sínum sér Sigríður Hrönn vel þá miklu umferð sem er um Barkinn.

„Fólk er stanslaust þarna á ferðinni að mynda. Áður áttuðu fáir sig á að horfa eftir skipinu sem er undir. Þarna er margt fólk á ferli, fólk kemur til að mynda bryggjuna og krakkarnir til að renna fyrir fisk. Þar er gott að skiltið sé komið upp því þarna er ákveðið upphaf sögu Reyðarfjarðar.“