Baráttukonan í Húsi handanna fagnar 15 ára afmæli verslunarinnar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. ágú 2025 20:24 • Uppfært 22. ágú 2025 20:26
Fimmtán ár eru liðin frá opnun Húss Handanna á Egilsstöðum, þar sem Lára Vilbergsdóttir hefur staðið vaktina frá upphafi. En þrátt fyrir farsælan rekstur síðustu ár steðjar nú húsnæðisvandi að starfseminni sem gæti ógnað framtíð verslunarinnar. Lára, sem hefur alla tíð verið óhrædd við að tala tæpitungulaust um samfélagsmál, berst nú fyrir tilvist Húss Handanna og blómlegum miðbæ á Egilsstöðum.
Lára Vilbergsdóttir er flestum Héraðsbúum og Austfirðingum að góðu kunn, fædd á Egilsstöðum árið 1963 og þar uppalin. Þó lífið hafi vissulega dregið hana annað stöku sinnum hefur hún að langmestu leyti eytt ævinni fyrir austan.
Eftir útskrift úr Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1983 hélt Lára til Danmerkur í nám í textílhönnun og kennslufræði, en sneri aftur heim árið 1990 þar sem hún hóf að kenna listgreinar við Alþýðuskólann á Eiðum, Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og síðar við listabraut ME.
Frá Randalín til Húss Handanna
Árið 1993 stofnaði hún svo handverkshúsið Randalín ásamt fleirum. Sú starfsemi leiddi til samstarfs við Signýju Ormarsdóttur og Sjafnar Eggertsdóttur undir nafninu Hús Handanna, sem þá var til húsa í gömlu mjólkurstöðinni við Kaupvang.
Þó starfsemin hafi gengið vel, var húsnæðið selt undan þeim. „Því miður var húsnæðið selt undan okkur í skiptum fyrir verkfræðistofu sem vantaði húsnæði til að byggja virkjun og stóriðju og auðvitað var það engin spurning hjá karlakörlunum. Við vorum svekktar og sárar svo ekki sé meira sagt,“ segir Lára.
Hús handanna rís á ný eftir hrunið
Eftir þessa reynslu var augljóst að efla þurfti markaðs- og sölustarf til að halda úti litlum hönnunar- og handverksfyrirtækjum. „Mér er almennt mjög illa við að láta góða hluti fara forgörðum. Því varð úr að endurnýta nafnið Hús Handanna á þessa „sölumiðstöð" sem við stofnuðum í tengslum við átaksverkefnið Þorpið á árunum upp úr Hruninu,“ útskýrir Lára.
Upprunalega markmiðið var eingöngu að selja íslenska og austfirska hönnunarvöru, listhandverk, myndlist og matarhandverk úr héraði, en til að halda rekstrinum gangandi þurfti Hús Handanna að þróast.
„Okkar leiðangur er engu að síður fyrst og fremst að vera góður sölu og kynningarstaður fyrir austfirska og íslenska vöru. Við gerum okkar besta til að vera austfirsku samfélagi til sóma, taka vel á móti fólki og leitumst við að vera skapandi afl í samfélaginu, ekki bara hver önnur búð. Í dag reyni ég af öllum mætti að bjóða hér einungis vörur sem ekki verða að rusli morgundagsins. Nóg af er slíku fyrir,“ segir Lára um áherslur verslunarinnar.
Ótryggt framtíðarástand á tímamótum
Nú getur farið svo á fimmtán ára afmælisári Húss Handanna að dyrum hússins verði lokað. Lára hefur ítrekað reynt að fá húsnæðið keypt en án árangurs og breytingar gætu verið í aðsigi í byggingunni.
„Ef allt fer á versta veg þá eru að minnsta kosti 50% líkur á því að við missum þetta húsnæði á næstu þremur til sex mánuðum. Auðvitað vonum við að úr rætist en það eru sannarlega blikur á lofti með rekstur til lengri tíma og ekki bólar neitt á nýja miðbænum eins og frægt er orðið."
Innfæddur þorpari með djúpar rætur
Lára er stolt af því að eiga og búa í þriðja elsta húsi sem byggt var á Ásnum, Lágafelli eða Tjarnarbraut 5, sem afi hennar og amma byggðu um 1947. „Ég er alin upp í þessu húsi til níu ára aldurs, þangað til foreldrar mínir byggðu sitt eigið hús í Laufskógunum," segir Lára. „Þegar svo kom að því að honum látnum að selja húsið þá voru góð ráð dýr fyrir mig, þá rétt um tvítugt að klára menntaskólann. Ég bara gat ekki hugsað mér að Lágafell yrði selt öðrum.“
Lára og eiginmaður hennar Valgeir keyptu húsið fyrir fjörutíu árum og hafa aldrei séð eftir því. „Hér líður okkur afskaplega vel og hér á ég mjög djúpar rætur sem ég finn fyrir dag hvern úti og inni."
Gagnrýnir vinnubrögð í skipulagi miðbæjar á Egilsstöðum
Lára er þekkt fyrir að skafa ekki utan af skoðunum sínum og nýlega vakti mikla athygli færsla hennar á samfélagsmiðlum þar sem hún gagnrýndi uppsetningu fyrirferðamikilla rafhleðslustöð Teslu á lóð N1, sem hún telur vera algjörlega á skjön við samþykkt deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæðið.
„Það var lögð mikil vinna og skattpeningar í þetta miðbæjarskipulag, vinnu sem í raun hefur spannað 20 ár ef allt er talið síðari ár. Fyrir mér er þetta eins og blaut tuska í andlitið að þessi framkvæmd sé í raun það fyrsta sem við sjáum gerast á því svæði sem er formlega samþykkt sem gildandi miðbæjar skipulag.
Í raun tók þessi framkvæmd vonina frá mörgum á mínum aldri, og hvað þá þeim sem eldri eru, um að hreinlega að lifa þá tíma að geta gengið stoltur um bæinn sinn. Þetta hefur ekkert með það að gera að hér eigi ekki að vinna að nauðsynlegri innviðauppbyggingu vegna rafbílavæðingar. Það þarf bara að vanda sig meira og vera með meiri metnað og virðingu fyrir skattpeningum bæjarbúa og þörfum okkar sem erum að reka verslun og þjónustu hér og viljum vera miðstöð verslunar og þjónustu á Austurlandi.
Þó skipulagið sé tilbúið þá hefur til dæmis ekki verið kortlagt hvort núverandi verslanir og veitingastaðir hafi hug á að festa sér húsnæði í nýjum miðbæ. Þaðan af síður hefur verið kortlagt hvaða þjónustu okkur vantar í nýjan miðbæ til að gera hann áhugaverðan og reyna að laða þá þjónustu að með markvissum hætti.
Við þurfum að skilgreina okkar DNA innan marka deiliskipulagsins og byggja í miðbæ sem endurspeglar menningu og lífsstíl og laða þannig til okkar fólk og fyrirtæki. Hefur til dæmis verið unnið að því að reyna að fá bakarí í bæinn? Bakarí eins og Sesam Brauðhús á Reyðarfirði er til mikils sóma og er akkúrat það sem okkur vantar hér en það þarf að vera rétt staðsett og í húsnæði sem hentar. Það þarf að laða að og stýra hlutum til þess að góðir hlutir gerist.
Það vantar allt samtal og samvinnu um það að glæða þetta miðbæjarskipulag lífi og gera það að veruleika. Þar er ekki bara við bæjaryfirvöld að sakast, því Þjónustusamfélagið á Héraði hefur ekki verið að beita sér fyrir hagsmunum verslunar og þjónustuaðila. Það þarf að breytast því við verðum nefnilega aldrei stærri en við sjálf!“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.