Austfirsk þungarokkssveit á bandarískum safndiski

Þungarokksveitin Bad Carburetor frá Egilsstöðum er meðal þeirra hljómsveita sem plötuútgáfan 272 Records, hefur valið á nítjánda diskinn í safndiskaröðinni Riot On Sunset. Diskurinn kom út á þriðjudag.

4078514125_faff45eafa_vefur.jpg

„Við fengum boð frá þeim hálfum mánuði eftir að við settum nýja lagið okkar, Underground, á netið,“ segir trommuleikarinn Davíð Logi Hlynsson. Ásamt honum eru í tríóinu Hafþór Máni Valsson, söngvari og gítarleikari og Ari Frank Inguson, bassaleikari. Þeir hafa allir búið um lengri eða skemmri tíma á Egilsstöðum.

272 Records, sem staðsett er í Los Angeles í Bandaríkjunum, sérhæfir sig í að finna hljómsveitir á netinu og safna saman lögum frá þeim. Áður hafa Atómstöðin og Vax, báðar frá Egilsstöðum, átt lög á diskum í röðinni sem og íslenska sveitin Foreign Monkeys. Meðal þekkustu nafnanna sem átt hafa lög á Riot On Sunset eru Sick Puppies og Beautiful Creatures. Diskunum er síðan dreift á 25 háskólaútvarpsstöðvar í Bandaríkjunum.

„Við erum greinilega að gera eitthvað rétt fyrst okkar lag er valið,“ segir Davíð. „Vonandi getum við byggt frekar á þessu. Þetta gefur okkur færi á að kynna hljómsveitina.“ Aðspurður um vinsældir hljómsveita af Héraði hjá 272 Records segist Davíð álíta það tilviljun en bætir við . „Austfirskt þungarokk er klárlega mun betra en annað. Fagmennskan þar er meiri.“

Hlusta má á Underground og fleiri lög sveitarinnar á www.myspace.com/badcarb

 

GG

  

Mynd: F.v. Ari, Davíð og Hafþór Máni. /Mynd GG.

  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.