Skip to main content

Aprílgöbb: Perlan keypt og opnar prufur fyrir hljómsveitaleikara

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. apr 2025 10:36Uppfært 02. apr 2025 10:38

Samkvæmt þjóðtrúnni þarf sá trúgjarni að hlaupa yfir þrjá þröskulda til að aprílgabbið teljist fullgilt. Göbb nútímans eru fæst það metnaðargjörn heldur snúast um að fá fólk til einhverra aðgerða eða einfaldlega til skemmtunar. Austfirskar stofnanir og fyrirtæki lögðu sitt af mörkum í gær.


Sinfóníuhljómsveit Austurlands auglýsti opnar prufur í Eskifjarðarkirkju. Í tilkynningu sveitarinnar segir að illa hafi gengið að manna sveitina fyrir tónleika hennar á sunnudag. Tekið var fram að ekki væri krafist neinnar getu, þekkingar eða vilja til að spila á hljóðfæri.

Tækniminjasafn Austurlands gaf það út að safnið hefði keypt Perluna í Öskjuhlíð undir nýja grunnsýningu. Haft var eftir safnstjóra að eftir vandlega yfirlegu hefði niðurstaðan orðið sú að talsvert meiri tekjumöguleikar væru í sýningu í höfuðborginni.

Í raun er á Seyðisfirði unnið að hönnun nýrrar grunnsýningar og endurbyggingu hins sögufræga Angró. Í gabbinu kom fram að verið væri að skoða hvort Angró yrði endurreist í Perlunni.

Hér verður þó ekki hjá því komist að benda á að Tækniminjasafnið hefði getað farið í fleiri áttir með þetta gabb, til dæmis að til stæði að rífa Perluna og hitaveitutankana þar sem þeir trufluðu flugumferð í Reykjavík. Mannvirkin yrðu síðan flutt austur á Seyðisfjörð og byggð upp þar.

Að lokum má nefna að Austurfrétt tók þátt í sameiginlegri aprílfrétt með Skessuhorni og Víkurfréttum sem fjallaði um að ríkisstjórnin ætlaði að ganga í að innheimta virðisaukaskatt hjá streymisveitum og samfélagsmiðlum.