Ánægjulegt að tónleikar Bláu kirkjunnar haldi velli
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. júl 2025 11:02 • Uppfært 02. júl 2025 11:03
Tónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði hefst í kvöld þegar Halldór Warén kemur fram ásamt hljómsveit. Á tónleikum sumarsins spila bæði innlendir og erlendir listamenn.
Tónleikaröðin er haldin í kirkjunni á Seyðisfirði á miðvikudagskvöldum. Halldór verður fyrstur en síðan fylgja Olga Vocal Ensemble, Guðríð Hansdóttir, Kevin Ayesh og Accio Piano Trio.
„Við auglýsum eftir tónlistarfólki og það sækja fleiri um en við getum tekið á móti. Við reynum að tryggja að tónleikar sumarsins séu fjölbreyttir og ég held að við séum með eitthvað fyrir alla í sumar.
Við erum með blöndu af íslensku og alþjóðlegu listafólki og allt frá píanótónleikum yfir í popp og þjóðlagatónlist,“ segir Elfa Hlín Pétursdóttir, sem leiðir tónleikaröðina í sumar.
Tónleikaröðin, sem kennd er við Bláu kirkjuna, hóf göngu sína sumarið 1998 og er því orðin rótgróin. „Ég horfi á hana sem hluta af mósaíkmyndinni sem menningarlífið á Seyðisfirði er. Hér hefur kannski verið áhersla á aðrar listgreinar en hún tryggir tónlistinni sess.
Á þeim tímum sem tónlistarhátíðir og tónleikahald eiga undir högg að sækja þá er mikilvægt og gleðilegt að hún haldi velli.“