Skip to main content

Allra fyrsta Októberfest á Djúpavogi um helgina

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2024 11:14Uppfært 03. okt 2024 13:10

Íbúar og gestir á Djúpavogi eru farnir að hlakka til allra fyrsta Októberfest sem fram fer í bænum á laugardaginn kemur en lykilþáttur í að slíkt komst á laggirnar er að nú státar þorpið af bar sem sérframleiðir sinn eigin bjór.

Margir veitingastaðir staðarins leggjast á eitt að gera þessa fyrstu hátíð eftirminnilega en síðdegis á laugardeginum verður boðið upp á ekta schnitzel og meðlæti í Löngubúð, Matarvagninn selur dýrindis bratwurst pylsur og í Faktorshúsi hafa bruggmeistarar sett sig í stellingar fyrir sérbruggaðan októberfestbjór eins og lög gera ráð fyrir á slíkum hátíðum. Pretzel kringlur verða ennfremur í boði og ef áhugasamir eiga og skarta klossum, leðurbuxum eða drindl-pilsum verður ekki mikið lengra komist að vekja upp eins þýska stemmingu og kostur er.

Þá er þó aðeins fátt upp talið því troðfull skemmtidagskrá fylgir herlegheitunum þegar á kvöldið líður. Gunnar Sigvalda er veislustjóri þar sem meðal annars er boðið upp á uppistand Kimi Tayler, keppt í bæði Naglen og jóðlkeppni og happdrætti og lukkuhjól á staðnum en ágóði af því fer allur til uppbyggingar íþróttamiðstöðvar Djúpavogs.

Faktorshúsið á Djúpavogi en þar má gera ráð fyrir góðu stuði vel frameftir kvöldi á laugardaginn kemur.