Allir hafa skoðanir
Aron Daði Þórisson,
nemandi í 10. bekk Grunnskóla Djúpavogs, vann til fyrstu verðlauna í ritgerðarsamkeppni
sem Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni efndu til. Verðlaunin voru afhent
við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift verkefnisins er „Heimabyggðin
mín“.

Hann lagði ásamt
samnemendum sínum í 8. – 10. bekk í mikla rannsóknar- og undirbúningsvinnu við
skrifin. „Við ræðum þetta ekki mikið okkar á milli en það hafa allir skoðanir.
Okkur dreymir öll um ákveðin störf en flest þeirra eru í höfuðborginni. Eðli
þeirra er samt þannig að hægt ætti að vera að vinna eitthvað af þeim úti á
landi.“
Ritgerðarsamkeppnin
var fyrri hluti verkefnisins en næsta skref verður að útfæra eina af
hugmyndunum. Það er þegar hafið í samstarfi við sveitarstjórn Djúpavogshrepps.
„Við ætlum að
gera göngustíg um fuglasvæðið svo menn geti gengið um það án þess að blotna.“
Tveir skólar úr
hverjum landshluta taka þátt í keppninni. Um 400 ritgerðir voru skrifaðar af
nemendum í 8. – 10. bekk en 21 var valin fyrir dómnefnd. Landsbyggðarvinir í
Reykjavík og nágrenni eru hluti af samtökunum Landsbyggðin lifir.