Skip to main content

Allir hafa skoðanir

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. feb 2008 18:56Uppfært 08. jan 2016 19:18

Aron Daði Þórisson, nemandi í 10. bekk Grunnskóla Djúpavogs, vann til fyrstu verðlauna í ritgerðarsamkeppni sem Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni efndu til. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í dag. Yfirskrift verkefnisins er „Heimabyggðin mín“.

Aron Daði, lengst til hægri, ásamt menntamálaráðherra og öðrum verðlaunahöfum. Mynd: Austurglugginn/Gunnar
„Ég held þetta sé byrjunin á einhverju góðu,“ sagði Aron Daði í samtali við Austurgluggann í dag. Ritgerð Arons Daða, sem birt verður í Austurglugganum, heitir „Nýr og betri Djúpavogur.“ Í rökstuðningi dómnefndar segir að Aroni takist að koma frá sér sérlega áhugaverðum hugmyndum á lifandi, skýran og persónulegan hátt. Lokaorð ritgerðarinnar voru prentuð á veggspjald sem hékk uppi í dag, en þau eru: „Ef þú ert ekki partur af lausninni þá ertu partur af vandamálinu.“

 

Hann lagði ásamt samnemendum sínum í 8. – 10. bekk í mikla rannsóknar- og undirbúningsvinnu við skrifin. „Við ræðum þetta ekki mikið okkar á milli en það hafa allir skoðanir. Okkur dreymir öll um ákveðin störf en flest þeirra eru í höfuðborginni. Eðli þeirra er samt þannig að hægt ætti að vera að vinna eitthvað af þeim úti á landi.“

 

Ritgerðarsamkeppnin var fyrri hluti verkefnisins en næsta skref verður að útfæra eina af hugmyndunum. Það er þegar hafið í samstarfi við sveitarstjórn Djúpavogshrepps.

„Við ætlum að gera göngustíg um fuglasvæðið svo menn geti gengið um það án þess að blotna.“

 

Tveir skólar úr hverjum landshluta taka þátt í keppninni. Um 400 ritgerðir voru skrifaðar af nemendum í 8. – 10. bekk en 21 var valin fyrir dómnefnd. Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni eru hluti af samtökunum Landsbyggðin lifir.