„Allir bæjarbúar leggjast á eitt við undirbúning“

„Breiðdælingar eru spenntir að bjóða gestum heim. Undirbúningur gengur vel og allt er að smella saman,“ segir Þorgils Haukur Gíslason, formaður ungmennafélagsins Hrafnkels Freysgoða, en 17. júní hátíðarhöld í Fjarðabyggð verða að þessu sinni haldin á Breiðdalsvík í samvinnu við félagið.


„Mannskapurinn er bjartur og allir bæjarbúar leggjast á eitt við undirbúning þessarar fyrstu þjóðhátíðar okkar Breiðdælinga í Fjarðabyggð. Svo er bara spurning  hvort að veðrið spili með, það var rigningarspá alla vikuna sem virðist vera að snúast í sól. Ef það verður leiðinlegt þá bara flytjum við dagskrána inn í hús. Hér á Breiðdalsvík eru engin vandamál, bara lausnir,“ segir Þorgils.

Glæsilegri dagskrá lýkur með útitónleikum við gamla bátinn á staðnum. Boðið verður upp á ókeypis rútuferðir og eru íbúar hvattir til að nýta sér þær. Dagskrána í heild sinni má sjá hér.

Egilsstaðir
Hefðbundin dagskrá verður á Egilsstöðum, en þar verða einnig opnaðar þrár sýningar, sem tíundaðar eru hér neðar í textanum. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Djúpivogur
Hefðbundin þjóðhátíðardagskrá verður á Djúpavogi sem hefst með skrúðgöngu frá íþróttahúsinu klukkan 14:00. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Seyðisfjörður
Seyðfirðingar bjóða meðal annars upp á hátíðlega athöfn í kirkjugarði, 17. júní hlaup barna, fallbyssuskot, skemmtidagskrá, babú-bíla og messu. Hátíðardagskrána í heild sinni má sjá hér.

Sumarsýningar í Sláturhúsinu og Safnahúsinu á Egilsstöðum
Hefð er fyrir því að menningarstofnanir á Fljótsdalshéraði opni sumarsýningar sínar á 17. júní. Í ár verður engin undantekning þar á og fjölbreyttar sýningar í boði bæði í Safnahúsinu og Sláturhúsinu.

 

Nr. 2. Umhverfing
Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní verður myndlistarsýningin Nr. 2 Umhverfing opnuð á þremur stöðum á Egilsstöðum. Þar verða til sýnis verk eftir rúmlega 30 listamenn sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast Fljótsdalshéraði á einn eða annan hátt. Sýningin er hluti af seríu sýninga sem settar verða upp hringinn í kringum landið á næstu árum. Fyrsta sýningin var sett upp á Sauðárkróki í fyrra og bar hún titilinn Nr. 1 Umhverfing. Hugmyndin að baki verkefninu er að setja upp myndlistarsýningar í óhefðbundnum rýmum þar sem ekki er hefð fyrir nútíma myndlistarsýningum. Nú er komið að Egilsstöðum. Sýningarstaðirnir eru þrír, Safnahúsið, Sláturhúsið og hjúkrunarheimilið Dyngja. Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út samnefnd bók með upplýsingum um listamennina og verk þeirra. Í Safnahúsinu verður formleg opnun kl. 15:30 og í Sláturhúsinu kl. 16:00. 

Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?
Í Safnahúsinu verður opnuð sýningin Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi? Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldi Íslands hafa níu austfirskar mennta-, menningar-, og rannsóknarstofnanir hafa tekið höndum saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli. Á sýningunni verður dregin upp mynd af lífi barna árin 1918 og 2018 og líf þeirra og nánasta umhverfi spegluð við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sýningin skiptist í fjóra hluta sem settir verða upp á Skriðuklaustri í Fljótsdal, Tækniminjasafninu á Seyðisfirði og í Randulfssjóhúsi á Eskifirði auk Safnahússins á Egilsstöðum.
Í tengslum við verkefnið hefur verið opnuð vefsíða: www.austfirsktfullveldi.is

Gull og gersemar í Sláturhúsinu
Í Sláturhúsinu verður opnuð leikfangssýningin Gull og gersemar en þar má sjá leikföng barna á Héraði frá ýmsum tímum. Leikföngin koma víða að, sum úr safnkosti Minjasafns Austurlands en önnur frá einkaaðilum.

Sumarsýning Skaftfells
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands fagnar 20 ára starfsafmæli um þessar mundir og hefjast veisluhöldin með opnun á sýningunni Kapall í sýningarsalnum og afmælisdagskrá og léttum veitingum í garðinum á laugardaginn klukkan 16:00. Á sýningunni Kapall er varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans vekja upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði. Nánar má lesa um sýninguna hér

Vaki þjóð – menningardagskrá í Miklagarði á Vopnafirði
Ævi og störf skáldsins Þorsteins Valdimarssonar verður gerð skil í glæsilegri í Miklagarði á Vopnafirði á laugardaginn klukkan 15:30. Í dagskránni verður fjallað um sögu og flutt verk Þorsteins Valdimarssonar, skálds sem fæddist á fullveldisárinu 1918. Í tengslum við viðburðinn er hátíðarkaffi Einherja að þessu sinni þann 16. júní í stað þess 17, en það er öllum opið og endurgjaldslaust. Hér má sjá dagskrána og lesa nánar um viðburðinn.

Elín og Markús í Fjarðaborg
Elín Elísabet og Markús Bjarnason verða með tónleika í Fjarðaborg á Borgarfirði á laugardagskvöld. Elín er teiknari og gaf út bókina Onyfir um Borgarfjörð eystri árið 2016. Undanfarin misseri hefur hún sungið með Kórus, kór lagahöfunda og nýverið komið fram sem sóló-tónlistarkona. Markús Bjarnason hefur spilað í fjölda hljómsveita í gegnum tíðina og m.a. gefið út plötuna The Truth, the Love, the Life undir nafninu Markús & The Diversion Sessions. Nýjasta lag Markúsar heitir Seinasta tegundin og er dúett með Elínu, en tónlist hans má lýsa sem jaðarskotnu þjóðlagapoppi. Hér má lesa nánar um viðburðinn.

Ljósmynd: María Hjálmarsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.