Skip to main content

Albert eldar hollustumat úr héraði ofan í lúxusgesti í Breiðdal

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jan 2025 15:24Uppfært 30. jan 2025 15:26

Albert Eiríksson frá Fáskrúðsfirði hefur undanfarin sumur unnið við að elda ofan í lúxusgesti á Þorgrímsstöðum í Breiðdal sem koma þangað í sérstakar hollustuvikur.


Albert mætti fyrst til að leysa af á Þorgrímsstöðum sumarið 2018. Bandarískt fyrirtæki, The Ashram, fór þá að leigja reksturinn og bjóða upp á heilsuvikur. Fyrirtækið hefur haldið því áfram í nokkrar vikur á hverju sumri fyrir 12-14 manns í hvert sinn.

„Hver hópur fyrir sig dvelur í sex daga og prógrammið er svipað uppbyggt allar vikurnar. Þarna er vaknað snemma á morgnana og farið í ýmis konar æfingar. Í kjölfar þess er morgunmatur, áður en haldið er úr húsi í göngur.

Það alltaf byrjað á rólegum og auðveldum göngum sem svo stig af stigi verða lengri og erfiðari eftir því sem á vikuna líður og oft er endað á því að fara í Stórurð. Þegar fólkið kemur til baka er boðið upp á nudd og hreyfingu áður en að kvöldverði kemur og alltaf er kvöldvaka í lokin.

Það er því heilmikið í kringum þetta allt og fyrirtækið þarf mikinn mannskap sem er mikil búbót fyrir fólk í fjórðungnum. Það þarf nuddara, leiðsögumenn, kokk, bílstjóra og fleiri til að allt gangi upp,“ segir Albert sem er landsþekktur sem matgæðingur og fagurkeri sem Albert eldar.

Ný sýn á Austurland í gegnum gestina


Hann segir vinnudagana langa, eldhúsfólkið sér um allar máltíðir, en tarnirnar séu skemmtilegar ekki síst þar sem hráefni af Austurlandi er vinsælast.

„Það sem mér finnst sérstaklega gaman er að fólkið vill undantekningarlítið fá mat úr héraði og við reynum sannarlega að verða við því. Við erum að bjóða upp á ýmislegt ferskt og lífrænt frá Vallarnesi og einnig erum við með nýjan fisk sem við veiðum í grenndinni og nýtum allt sem við getum úr náttúrunni sjálfri.“

Eins þykir honum gaman að upplifa Austurland í gegnum gestina, sem oft líta það öðrum augum en heimafólkið. „Eins ljúft og það er fyrir austan í sól og hita þá er það til dæmis þokan okkar sem þeim finnst einna stórkostleguast að upplifa og enginn kippti sér neitt upp við þær rigningar voru í sumar. Þeim þótti það bara hressandi.

Þá er og frábært hvað þeim finnst merkilegt að ganga í íslenskum mosa og það er jafnvel hápunktur hjá nokkrum. Ekki síður finnst flestum stórkostlegt að við getum bara lagst niður við næsta lækjarbakka og drukkið ferskt vatn eins og við getum í okkur látið. Þeim leiðist heldur ekkert að fara út og tína fyrir mig fjallagrös, blóðberg og sveppi sem ég nota svo í matargerðina.

Svo auðvitað eiga þeir sumir erfitt með að sofna fyrstu næturnar, en ekki endilega út af birtunni heldur þessari djúpu þögn í náttúrunni og ekki síður fuglasöng sem reglulega brýtur upp næturþögnina. Þetta er bókstaflega annar heimur fyrir flesta en þeir þekkja heiman frá sér og hrífur Ameríkanana sannarlega, sem margir koma frá stórborgum vestanhafs.“

Albert, lengst til hægri, ásamt eiginmanni sínum Bergþóri Pálssyni og eiganda The Ashram, Catharinu Hedberg. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.