Ágæt viðbrögð við sölu á Bleiku slaufunni á Austurlandi
Ágætur gangur í átaki krabbameinsfélaganna á Austurlandi í Bleikum október en fyrir utan söfnun með sölu Bleiku slaufunnar og á ýmsum öðrum munum eru óvenju margir viðburðir á dagskránni fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra allt fram til mánaðarmóta.
Kristjana Sigurðardóttir, formaður Krabbameinsfélags Austurlands, metur stöðuna góða miðað við sama átak síðustu ára. Ekki sé reyndar hægt að glöggva sig á upphæðum sem safnast hafi því slíkt fari allt gegnum Krabbameinsfélags Íslands (KÍ)en lítill vafi leikur á að átakið gengur vel og vekur athygli sífellt fleiri.
„En ég veit að sala á slaufunni okkar hefur farið sérstaklega vel af stað í verslun Nettó. Salan á henni er mjög mikilvæg krabbameinsfélögum landsins en allt fer það til KÍ og aðildarfélögin sækja svo um styrki þangað í ýmis þau verkefni sem við tökum okkur fyrir hendur yfir árið. Það á til dæmis við um hvíldarhelgarnar þar sem við erum í góðu samstarfi við Krabbameinsfélag Austfjarða og er fastur liður í starfinu okkar. Fjármagn til þess sækjum við um hjá KÍ og bjóðum þá okkar skjólstæðingum upp á slíku afslöppunar- og dekurhelgi. Sama gildir um námskeið sem við höldum sérstaklega fyrir þá einstaklinga sem eru í meðferð en þá fáum við aðila að sunnan til að halda þau. Allt slíkt er mögulegt með styrkjunum frá KÍ.“
Mikið framundan
Þegar hefur fjöldi viðburða farið fram hjá báðum austfirsku krabbameinsfélögunum frá mánaðarmótunum og nóg er framundan næstu vikurnar. Bæði félögin haldið Bleikar messur sem vel voru sóttar og Kristjana segir að í vikunni verði meðal annars samverustund í safnaðarheimili Vopnafjarðar á miðvikudaginn kemur.
„Svo verður Bleikt kvöld haldið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þann 22. október. Þangað getur fólk komið, notið veitinga, hlýtt á góðan fyrirlestur og átt góða og ljúfa stund saman. Við auglýsum líka alla viðburðina fyrirfram á síðunni okkar á Facebook svo fólk getur fylgst með þar.“
Á fimmtudag verður Bleikt kvöld Krabbameinsfélags Austfjarða haldið í húsi félagsins á Reyðarfirði en þau kvöld eru gjarnan hápunktur mánaðarins. Alla dagskrá þess félags er ennfremur að finna á síðu þeirra á Facebook.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var ranglega fullyrt að Bleikt kvöld á Reyðarfirði yrði 23. október. Hið rétta er að það verður 16. október.