Skip to main content

„Áfram verði gott að koma í Skriðuklaustur“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. maí 2025 12:21Uppfært 09. maí 2025 12:23

Hjónin Elísabet Þorsteinsdóttir og Skúli Björn Gunnarsson sigla nú inn í sitt síðasta sumar sem staðarhaldarar á Skriðuklaustri í Fljótsdal, hann sem forstöðumaður Gunnarsstofnunar og hún sem rekstraraðili Klausturkaffis. Þau hafa verið þar síðan starfsemi hófst þar í núverandi mynd sumarið 2000.


„Það er til í viðtali við okkur frá því 2000 að við ætluðum að gefa þessu fimm ár. Það hefur teyst svolítið úr því. Starfið hefur skemmtilegt, gaman að takast á við áskorunina og sá meðbyr sem við höfum fengið hefur dregið mann áfram,“ segir Skúli Björn.

Elísabet segir að þau hafi velt fyrir sér allra síðustu árin hvenær rétt væri að láta staðar numið. Ákvörðunina hafi þau svo tekið endanlega í fyrra. Komið sé gott eftir aldarfjórðung. Hún segir það góða tilfinningu að vera að sigla inn í síðasta sumarið en þau láta formlega af störfum í árslok.

Skúli talar um að farið hafi verið yfir verkefnalistann sem orðið hafi til í gegnum tíðina og gengið í að klára það sem staðið hafi út af til að skila góðu búi til arftakans. Hann kom starfa haustið 1999 og þá þurfti að byrja á að móta skipulagið innanhúss og móta stefnu með stjórn Gunnarsstofnunar, sem var að taka til starfa.

Samsetning gesta og kröfur breyst


Skriðuklaustur hefur allan tímann verið í hópi fjölsóttustu safna Austurlands. Flestir gestanna koma í heimsókn á sumrin. „Við vinnum hvernig ferðaþjónustan hefur breyst. Þótt við fyrir austan kvörtum yfir að vera út úr þá hefur landslagið breyst, bæði í framboði og fjölda ferðamanna, sérstaklega þeirra erlendu.

Fyrstu tíu árin voru Íslendingar í meirihluta gesta. Þeir eru enn tryggir gestir – ef þeir eru á svæðinu. Þeir koma í holskeflum þegar veðrið er gott hér og ömurlegt annars staðar,“ segir Skúli.

Fyrir Elísabetu eru breytingarnar faldar í framboðinu á matar- og kaffihlaðborðunum. Tegundunum hefur fjölgað en líka orðið fjölbreyttari vegna krafna markaðarins. „Við erum með meira af grænmetismat, vegankökum, glútenfríu og slíku. Þetta er allt heimabakað og þá er auðvelt fyrir okkur að breyta uppskriftunum þannig þær verði glútenlausar til dæmis.

Eftirspurnin hefur smám saman aukist. Það voru ekki margir að borða grænmetis- eða grænkeramat þegar við byrjuðum og eins hefur mjög aukist að spurt sé eftir glútenlausum mat.“

Umfang klaustursins kom á óvart


Skriðuklaustur er ekki bara ferðamannastaður, heldur líka menningarstofnun sem á meðal annars útgáfuréttinn á öllum verkum Gunnars Gunnarssonar, skálds. „Fyrir 25 árum settum við á blað tvíþætta starfsemi, annars vegar ferðamannastað með sýningum, veitingum og viðburðum og hins vegar það sem snýr að fræðastarfi, sem er kannski minna þekkt. Í húsinu er gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn, sem hefur verið hér frá 1989 og ein sú elsta á landinu.

Það sem hefur bæst við í minni tíð er klaustrið. Við vissum að hér hefði verið miðaldaklaustur og vildum vita meira en áttum aldrei von á að það yrði svona stór partur af staðnum og starfsemi stofnunarinnar. Þau erlendu samstarfsverkefni sem við höfum tekið þátt í eru ekki síst á grunni klaustursins og varðveislu menningar.“

Tækifæri í bókmenntunum


Nýverið var auglýst eftir nýjum forstöðumanni og rennur umsóknarfresturinn út eftir viku. „Það er kominn ákveðinn stöðugleiki í starfsemina hér en það skemmtilega við mannabreytingar á svona stöðum er að fólk kemur inn með ný áhuga- og fræðasvið.

Við höfum verið með fókusinn mikið á menningararfinum en það er hægt að fara meira í bókmenntirnar og Gunnar. Á þessu ári erum við að ljúka tveimur langtímamarkmiðum, nýjum útgáfum á Aðventu á ensku og dönsku.

Stjórn hefur líka samþykkt að bæta við nýjum vinkli í stefnu stofnunarinnar sem ég held að geti verið áhugaverður fyrir nýjan forstöðumann sem er að huga að höfundum af erlendu bergi á Íslandi. Það fellur algjörlega að hugsjónum Gunnar sem var innflytjandahöfundur í Danmörku og nánast innflytjendahöfundur þegar hann flutti aftur til Íslands.“

Sumarfrí efst á listanum


Varðandi kaffihúsið segir Elísabet að það verði að koma í ljós með nýjum rekstraraðila. Hún hafi trú á að ákveðnir réttir sem samofnir séu ímynd staðarins verði áfram í boði meðan aðrir breytist. „Það verður áfram gott að koma í Skriðuklaustur – bæði fyrir sál og líkama.“

Aðspurð um hvað þau ætli að taka sér fyrir hendur svara Skúli Björn og Elísabet að þau hafi nokkrar hugmyndir. Stóra markmiðið sé að fara í sumarfrí, lítið hafi verið um það í rúm 20 ár því fólk í ferðaþjónustu kemst lítið frá á háannatíma.