„Aðkomutúttur“ færa fjör í Stöðvarfjörð
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. júl 2025 15:53 • Uppfært 16. júl 2025 15:56
Framboð afþreyingar og skemmtunar getur verið takmarkað á litlum stöðum eins og Stöðvarfirði, þar sem íbúafjöldinn er tæplega 200 manns. Þær Silja Lind Þrastardóttir og Ragnhildur Jónsdóttir ákváðu að taka málin í eigin hendur veturinn 2023.
Vegna slæmrar veðurspár var ekki útlit fyrir að börnin í þorpinu gætu farið í árlega Hrekkjavökugöngu sína. Ekkert annað hafði verið áformað og því tóku þær sig til og útbjuggu sérstakt draugahús í einum sal Sköpunarmiðstöðvarinnar.
„Þetta tókst bara með afbrigðum vel og öllum fannst þetta mjög skemmtilegt, þótt innandyra væri og öðruvísi en venjulega. Síðan höfum við endurtekið þann leik með jafn góðum árangri,“ segir Ragnhildur, sem gjarnan er kölluð Ránka.
Skemmtifélagið leggur áherslu á Balann
Í framhaldinu ákváðu Silja Lind og Ragnhildur, sem lýsa sér sem „aðkomutúttum“ þar sem þær koma að sunnan, að endurvekja Skemmtifélag Stöðfirðinga, sem legið hafði í dvala um hríð. Undir þeirra forustu hefur aðaltilgangur félagsins verið að brydda upp á afþreyingu fyrir börn og hefur það meðal annars nýtt Balann, tún í miðju þorpsins til þess. Þær hafa meðal annars aflað styrkja úr byggðaverkefninu Sterkur Stöðvarfjörður til að bæta aðstöðuna þar.
„Okkur langar mikið að auka veg Balans miklu meira en raunin er,“ segir Silja. „Að þar verði sannarlega staður sem krakkarnir vilja fara á og leika sér og hafa úr ýmsu að velja. Það er svo dýrmætt í litlu fámennu þorpi ef krakkarnir geta samt fundið sér skemmtilegan stað og þeirra gleði og hamingja trekkir að alla hina sem finnst gaman að fylgjast með og jafnvel taka líka þátt.“
Þær eru ánægðar með hvernig samfélagið hefur tekið í hugmyndir þeirra. „Það hefur verið góð mæting allra, bæði ungra sem aldinna, á flesta þá viðburði sem við höfum komið á laggirnar. Hvort sem það eru sápukúlupartíin eða bíósýningarnar, þá eru bæjarbúar sannarlega að sýna lit og áhuga,“ segja þær að lokum.
Frá hrekkjavökugleði á vegum félagsins. Mynd: Aðsend
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.