Skip to main content

Á risaýtu í kapp við tímann til að bjarga Grindavík

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. júl 2025 15:53Uppfært 14. júl 2025 15:55

Kraki Ásmundsson úr Hróarstungu er meðal þeirra vinnuvélastjórnenda sem undanfarin ár hafa barist fyrir því að hlaða upp varnargarða í nágrenni Grindavíkur. Kraki var þar við störf frá því eldgos hófust í nágrenni bæjarins í lok árs 2023 þar til um síðustu áramót.


Kraki reyndist vera einn tiltölulega fárra með nægilega reynslu og tilskilin próf á þær risaýtur sem til verksins þurfti og svaraði hann kallinu þegar hann var beðinn. Það kostaði hann linnulitla vaktavinnu í hartnær tveggja ára skeið fjarri fjölskyldu sinni á Austurlandi.

„Það var spennandi að taka þátt í þessu til að byrja með en maður fór að hugsa sitt þegar 70 tonna jarðýtan sem ég var á hristist öll og skalf eins og skopparakringla. Ég var tiltölulega nýbyrjaður í vinnu fyrir þetta fyrirtæki þegar kallið kom og á augabragði var ég farinn að ýta jarðvegi í garða í brennandi hita við hlið gosstraums. Hárin á hausnum risu sannarlega á köflum fyrstu dagana en eftir um það bil vikutíma þá fór þetta allt að venjast eins og annað.

En óþægilegt var þetta stundum. Við vorum stundum að vinna svo nálægt glóandi hraunstraumnum að hitastigið inni í ýtunni náði alveg 40 stigum. Sjálfur er ég afskaplega lítið fyrir mikinn hita svo það var óþægilegt.

Hræðsla var sannarlega fyrir hendi fyrstu dagana þó svo það hafi vanist þegar á leið. Sjálf vinnan var skemmtileg að mestu og stundum dálítill hasar í gangi ef hraunstraumur breytti um stefnu eða eitthvað slíkt. Þetta er eftirminnileg lífsreynsla, að vera með í þessu.“

Kraki lét staðar numið um síðustu áramót og réði sig sem bílstjóra hjá Kubbi, sem tók við sorphirðu í Múlaþingi. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni á Heykollsstöðum í Hróarstungu og er þar með lítinn búskap.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.