Stórtónleikar á verði sem ekki hefur áður sést

gudjón birgir webStórtónleikarnir Jólafriður 2015 verða haldnir í íþróttahúsinu í Neskaupstað laugardaginn 5. desember næstkomandi, en það eru engin önnur en þau Eiríkur Hauksson, Guðrún Gunnarsdóttir og Páll Rósinkranz sem sjá um að koma fólki í jólaskap.

Guðjón Birgir er ekki óvanur tónleikahaldi fyrir jólin, en í fyrra fékk hann Jóhönnu Guðrúnu, Matta Matt og úrval heimafólks til þess að skemmta.

„Í ár verður þetta með öðru og stærra sniði en við ætlum að flytja Eirík Hauksson inn beint frá Noregi, Guðrún Gunnarsdóttir og Páll Rósinkranz koma frá Reykjavík, svo erum við með þrjá flotta söngvara héðan úr Neskaupstað og síðast en ekki síst Karlakórinn Ármenn. Auðvitað verða svo hljóð, ljós og mynd eins og best verður á kosið."

Guðjón Birgir væntir þess að fólk flykkist á tónleikana.

„Ég vona að það verði uppselt og fullt hús. Dagskráin er frábær og á verði sem hefur ekki sést áður á sambærilegum viðburði hvorki hér né annars staðar en Síldarvinnslan í Neskaupstað er bakhjarl tónleikanna og gerir það að verkum að miðaverðið er langt undir því sem gengur á tónleika af þessari stærðargráðu.

Mér finnst ekki spurning að setja upp slíka tónleika hér fyrir austan en sambærilegir viðburðir eru vel sóttir annars staðar á landinu. Við höfum allan búnað til þess að framkvæma slíka stórtónleika hér á staðnum og því er engin spurning um að nýta það."


Hef gaman að þessari sérstöku tilfinningu

Aðspurður hvort að Guðjón Birgir sé jólabarn segir hann: „Já, ég er jólabarn en ekki jólaundirbúningsbarn. Ég hef gaman af þessari sérstöku tilfinningu sem gerir vart við sig þegar klukkan slær sex og jólin ganga í garð, en ég hef ekki gaman af jólaljósum, gjafainnkaupum, jólaskrauti og slíku."




Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.