„Var á köflum eins og að vera í tímavél"

faskrudsfjordur heimildamynd10Guðmundur Bergkvist og Björn Jóhannsson hafa undanfarið ár unnið að heimildarmyndinni Fáskrúðsfjörður - Brot úr sögu bæjar.

Í myndinni er stiklað á stóru í sögu Fáskrúðsfjarðar, fjallað um sögu, atvinnulíf, atburði, félagslíf, hljómsveitir og ýmislegt fleira. Fram koma fjölmörg myndbrot sem sjaldan eða aldrei hafa áður sést, ásamt hundruðum ljósmynda og fjölda viðtala, bæði gömlum og nýjum.

Guðmundur Bergkvist og Björn Jóhannsson eru báðir brottfluttir Fáskrúðsfirðingar og segir Guðmundur hugmynd verkefnisins hafa kviknað í fyrravor þegar þeir Björn ákváðu að halda tónleika á heimaslóðunum með þeim hljómsveitum sem störfuðu á árum áður á staðnum.

„Tónleikarnir voru haldnir á Frönskum dögum í fyrra. Við tókum þá upp og gáfum út á DVD og datt jafnframt í hug að gera mynd um félagslífið í bænum á árum áður og byrjuðum þá um sumarið að taka viðtöl og efni.

Þegar við svo fórum að leita að gömlu efni fundum við ótrúlegasta myndefni á ýmsum stöðum, bankahólfum, háaloftum og jafnvel 8mm filmur fundust í geymslum erlendis. Sumt af þessu hafði enginn séð áður, jafnvel ekki einu sinni þeir sem myndirnar tóku. Þetta þróaðist því þannig í að verða heimildarmynd um fjörðinn, mannlífið, atvinnulífið, söguna og hvaðeina."


Hlaut eindóma lof á frumsýningu

Myndin var frumsýnd á Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði í sumar og hlaut mikið lof áhorfenda.

„Við söfnuðum efni fram á haust og allan síðasta vetur og myndin var í vinnslu og klippingu alveg fram að frumsýningardegi. Við héldum þrjár sýningar þar sem um 350 manns sáu myndina á Frönskum dögum og hlaut hún gríðarlega góð viðbrögð og dóma áhorfenda. Síðan þá hafa okkur borist enn fleiri myndir og myndskeið og hefur þeim verið bætt við heimildamyndina, en hún er tæpir tveir tímar að lengd."

Guðmundur segir hverju byggðarlagi nauðsynlegt að halda utan um sína sögu með einhverjum hætti.

„Þetta var það sem mig langaði að gera, að koma kvikmyndum og ljósmyndum úr firðinum í eina heimildarmynd, þótt myndin sé ekki beinlínis sett upp sem saga fjarðarins. Slík vinna myndi taka mörg ár og yrði sú mynd eflaust 5-6 klukkustundir að lengd. Vinnan hefur verið einstaklega skemmtileg og var á köflum eins og að vera í tímavél, því þarna er margt skemmtilegt að sjá, bæði horfin mannvirki og fjölmargt fólk sem horfið er af sjónarsviðinu. Það kom fyrir að maður rakst á kvikmyndir af sjálfum sér. Ég myndi segja að myndin sé skylduáhorf fyrir alla þá sem hafa einhverja tengingu eða taugar til Fáskrúðsfjarðar"

Myndin verður sýnd í Bæjarbíói í Hafnarfirði þann 20. september og verður það eina sýningin á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er á að gefa myndina út á DVD disk fyrir jólin.

faskrudsfjordur heimildamynd1faskrudsfjordur heimildamynd2faskrudsfjordur heimildamynd3faskrudsfjordur heimildamynd4faskrudsfjordur heimildamynd10

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.