Keypti sér hrærivél með „gamaldags peningum": Eva Hrund Kjerúlf lagði fyrir tíu krónur á dag í 15 ár

Anna og Eva 003 sh webEva Hrund Kjerúlf lagði fyrir tíu krónur á dag í fimmtán ár og keypti sér Kitchenaid-hrærivél fyrir upphæðina sem hafði safnast.
Eva Hrund býr ásamt fjölskyldu sinni á Egilsstöðum. Eftir að hafa ábendingu um þetta skemmtilega mál setti Austurfrétt sig í samband við Evu og fékk hana til þess að segja sögunum um „tíkalladolluna".

Fékk hugmyndina úr bíómynd

Hugmyndin kviknaði þegar hún átti eldri dóttur sína, í febrúar árið 2000, en næturgjafir kalla á aukið sjónvarpsáhorf. „Mér hefur dottið margt í hug í gegnum árin, mis-vitlaust og ekki allt farið í framkvæmd. Það var einmitt bíómynd á Stöð 2 sem vakti áhuga minn á því að leggja smotterí fyrir, en það gerði húsfrúin í myndinni. Daginn sem sonur hennar fæddist ákvað hún að leggja smotterí fyrir daglega og þegar hann fór í háskóla átti hún ansi góðan fjársjóð handa honum í veganesti."

Þetta gerði Eva Hrund, en hún hefur lagt tíu krónur fyrir daglega í fimmtán ár. „Þarna var ég 25 ára. Þetta varð svo bara að rútínu, eins og að tannbursta sig á kvöldin. Smá bókhald á litlum miðum voru ofan í dollunni sem tíkallarnir fóru í. Ég er svo skrýtin að mér finnst ógurlega vont að skulda einhverjum, hvað þá að kaupa eitthvað á Visa-raðgreiðslum."

Eva Hrund lét þó til leiðast og fékk sér Visa-kort þegar hún keypti sér þvottavél. „Mér fannst það ekki góð tilfinning. Eins og oft fer var ég komin í vítahring með blessað kortið og endaði á að klippa það, var verkfæri sem mig langaði ekkert að nota og ætlaði aldrei að fá mér aftur. Í dag er maður þó nauðugur að hafa visakort til að borga flugfargjöld, hvað varð eiginlega um staðgreiðsluafsláttinn? Tilfinningin að bíða smá eftir hlutunum og staðgreiða þá er bara miklu betri og ég kann svo vel að meta allt í kringum mig."

Keypti vélina með „gamaldags peningum"

Af hverju varð hrærivél fyrir valinu þegar kom að því að losa sjóðinn? „Ég hef alltaf haft gaman af því að baka og á enn þeytarann sem ég keypti í búið þegar ég var 18 ára. Hann gerir sitt gagn, þannig að mér fannst ekkert liggja á að fá mér hrærivél. Í millitíðinni fékk ég lánaða vél hjá mömmu sem langamma mín fékk í afmælisgjöf í kringum 1960, sem var bara fínt. Svolítill hávaði og glerskál sem ég var hrædd um að brjóta. Svo yngdi ég talsvert upp og fékk aðra sem amma mín í Vallholti átti, sennilega 20-30 ára. Hana notaði ég mikið og dætur mínar líka.

Núna nýlega voru rafmagnsdagar í Nettó og þá sá ég gripinn minn á kostakjörum. Ég leit á bókhaldið mitt, bætti örfáum þúsundköllum við og keypti hana með gamaldags peningum, 15 árum eftir að ég byrjaði með tíkallana mína. Ég sagði engum frá þessu ef ég gæti ekki klárað málið."

Ætlar að halda áfram að safna

Eva Hrund segist ætla að halda áfram að spara með þessum hætti. „Það er hægt að kaupa svo nytsamlega hluti við hrærivélina eins og hakkavél. Stærsti bitinn er kominn svo hitt verður ekkert mál. Ég ætla reyndar að setja 20-30 krónur á dag núna. Fimmtán ár eru kannski heldur langur tími að bíða, en þetta er hægt. Svo hef ég aldrei keypt mér nýjann sófa," segir Eva Hrund að lokum.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.