Boða til Hreindýramessu á Héraði: Viljum gera sýnilegra það sem gert er við dýrin

hreindyr vor08Til stendur að halda tveggja daga Hreindýramessu á Fljótsdalshéraði þegar dregið verður um hreindýraleyfi eftir um mánuð. Forsvarsmaður segir markmiðið að gera hreindýraiðnaðinn á Austurlandi sýnilegri.

„Við höfum talað um það í mörg ár að gera meira úr útdrættinum og ákváðum nú að láta verða af því," segir Þórhallur Borgarsson, hreindýraleiðsögumaður, sem haft hefur veg og vanda að undirbúningnum.

Messan verður í Sláturhúsinu þann 21. og 22. febrúar. Dregið verður þann 21. og verður drátturinn sýndur á stórum skjá á messunni.

Meðal annars stendur til að halda villibráðarveislu, sýna muni sem unnir eru úr hreindýrum og sýndar kvikmyndir sem tengjast hreindýrum.

„Við viljum vekja athygli á því menningarfyrirbrigði sem hreindýr og hreindýraveiði eru á Austurlandi og gera það sýnilegra sem gert er við þau á svæðinu. Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir að þetta er atvinnugrein sem veltir 250-300 milljónum á svæðinu árlega."

Leyft er að veiða 1412 dýr næsta sumar en kvótinn hefur aldrei verið meiri. Undanfarin ár hafa þrefalt fleiri sótt.

Fleiri viðburðir sem tengjast hreindýrum eru framundan en á Minjasafni Austurlands er verið að setja nýja grunnsýningu sem ber yfirskriftina „Hreindýr og menn: sambúð manna og hreindýra á Austurlandi."

Fyrir hana er leitað að Brno-riffli með Jena-sjónauka sem Samband íslenskra samvinnufélaga flutti inn á sínum tíma og var seldur víða um land.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.