Gísli Sigurgeirsson í yfirheyrslu: Austurland toppurinn á tilverunni

Gísli Sigurgeirson n4Gísla Sigurgeirsson þekkja Austfirðingar vel. Hann hefur um langt skeið stýrt þættinum Glettur að austan á N4 sem er fjölbreyttur mannlífsþáttur um Austurland og Austfirðinga. Hann hefur lika verið tíður gestur að skjám landsmanna í mörg herrans ár, en hann starfaði meðal annars lengi sem fréttamaður á RÚV.

Gísli er fæddur á Akureyri en á sterkar rætur á Austurlandi. „Faðir minn var blanda af Eyfirðingi og Þingeyingi, en móðir mín var Austfirðingur, fædd og uppalin í Skógargerði á Héraði. Fyrir vikið drakk ég það í mig með móðurmjólkinni, að Austurland væri toppurinn á tilverunni; þar væru fallegustu fjöllin, besta veðrið og þar að auki myndarlegasta, besta, skemmtilegasta og gáfaðasta fólkið! Auðvitað trúði ég mömmu minni og reynslan hefur kennt mér, að hún hafði rétt fyrir sér. Við Skógerðingar erum líka þekktir fyrir að standa fastir á meiningu okkar. En það er ekki vegna þrjósku eða stíflyndis. Það er einfaldlega vegna þess, að við höfum alltaf rétt fyrir okkur,“ segir Gísli og hlær þegar blaðamaður Austurfréttar hafði samband við hann.

Hann heldur áfram. „Það kom síðan eins og af sjálfu sér, að ég var sendur í sveit til afa og ömmu í Skógargerði um leið og ég gat orðið að gagni. Síðar komst ég að sem geitasmali hjá Ingu fóstru minni og Páli móðurbróður mínum á Aðalbóli. Þar var gaman að vera og hafi ég komist til manns, þá á Inga fóstra mín þar stóran hluta að máli,“ segir Gísli sem er í yfirheyrslu þessa vikuna. Þess má geta að Glettur að Austan hefur fengið nýjan sýningartíma og er nú á dagskrá á N4 á fimmtudögum kl. 18:30

Fullt nafn: Gísli Sigurgeirsson

Aldur: 66 ára

Starf: Kvikmyndagerðarmaður

Maki: Guðlaug K. Ringsted

Börn: Við hjónin eigum 7 börn í sameiningu.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Skógargerði er náttúrulega unaðsreitur, en það er líka Loðmundarfjörður. Þar er dásamlegt að vera í náttúrufegurðinni og kyrrðinni. Við hjónin höfum verið þar skálaverðir undanfarin vor og ég treysti því að okkur verði treyst fyrir því starfi einu sinni enn. Þar er ekkert sem truflar.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
Mjólk, ost og smjör, en ég vildi gjarnan eiga hákarl og landa eða íslenskt brennivín.

Hvaða töfralausn trúir þú á?
Að ég taki fram handboltaskóna og fari að æfa með íslenska landsliðinu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Íslenskt lambakjöt með súpu úr soðinu.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Hringi í eitthvert barna minna og spyr hvað þetta orð „tríta“ þýðir.

Hvernig líta kosífötin þín út?
Illa, held ég. En þau eru kosí.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Harðfiskur frá Heimi vini mínum á Grenivík – með vænni smérklípu.

Hvernig líkamsrækt stundar þú ?
Í huganum sit ég á hjóli, stíg það af krafti, til að koma snúningi á rafal, sem framleiðir orku til að lýsa upp húsið mitt. Það heitir hugarorka. Ég þreytist oft við þessar hugsanir.

Hver er uppáhalds bókin þín?
Það er bók Stefáns Jónssonar, „Að breyta fjalli“. Ef ég er dapur, þá leita ég í bókina og hún klikkar aldrei. Stútfull af húmor og alltaf eins og ný.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Hann byrjar oftast að morgni, þegar ég vakna, sem stundum gerist reyndar ekki fyrr en um hádegi. Honum lýkur þegar kvöldar og ég sofna.

Hvað bræðir þig?
Rauðhærð kona, greind og skemmtileg, fædd á Kljáströnd.

Hvað er skemmtilegast við gerð þáttarins Glettur að Austan?
Að aka um Austurland og hitta Austfirðinga.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.