Skip to main content

Vígsludagskrá á gervigrasvellinum í Neskaupstað frestað

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. ágú 2024 09:48Uppfært 21. ágú 2024 09:49

Vígsludagskrá sem far átti fram í dag á endurbættum knattspyrnuvelli í Neskaupstað hefur verið frestað vegna banaslyssins á Vesturöræfum í gær. Leikur KFA og Hattar/Hugins verður í staðinn leikinn í Fjarðabyggðarhöllinni.


Tæplega fertugur karlmaður lést í gærmorgun af völdum voðaskots við gæsaveiðar á Vesturöræfum. Í tilkynningu SÚN til Norðfirðinga segir að samfélagið sé lamað vegna þessa sorglega slyss. Vígsludagskrá SÚN-vallarins er því frestað.

Hápunkturinn í dagskránni í dag átti að vera leikur KFA og Hattar/Hugins í annarri deild karla í knattspyrnu. Sá leikur getur ráðið því hvort liðið á áfram möguleika á að komast upp um deild. Leikurinn verður eftir sem áður leikinn klukkan 18:00 í dag en hefur verið færður yfir í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði.

Í tilkynningum KFA, Hattar/Hugins og SÚN eru fjölskyldu og aðstandendum vottuð hin dýpsta samúð.