Skip to main content

Vaxandi áhugi erlendis frá á Dyrfjallahlaupinu

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2025 11:32Uppfært 04. júl 2025 11:34

Erlendir hlauparar eru stór hluti þeirra sem ætla að þreyta Dyrfjallahlaupið á morgun. Að þessu sinni hefur verið bætt við sérstökum styrktarviðburði fyrir Pieta-samtökin í tengslum við hlaupið en dagskráin vindur alltaf upp á sig.


„Þótt skráningar í hlaupið séu aðeins færri en í fyrra þá er staða hlaupsins enn sterk. Við erum með 250 þátttakendur í ár og erum enn meðal tíu vinsælustu og bestu hlaupanna hérlendis. En við verðum vör við að það er orðið mikið framboð á hlaupum,“ segir Olgeir Pétursson, stjórnandi hlaupsins.

Hlaupið var fyrst haldið árið 2017 og þá var hlaupið í gegnum Stórurð og Dyrfjallasvæðið. Síðan hefur hlaupið verið fært niður á Víknaslóðir. Í boði eru þrjár leiðir, 12, 24 og 50 kílómetrar. Lengsta leiðin liggur úr botni Borgarfjarðar yfir Kækjuskörð og þaðan út víkurnar eina af annarri.

Í vandræðum með að fylgja þeim fljótasta eftir


Sú leið var í fyrsta sinn hlaupin í fyrra og þá kom ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson úr Neskaupstað fyrstur í mark á 4,5 klukkustundum. „Við vorum í vandræðum með að fylgja honum,“ segir Olgeir en meðaltími á leiðinni var um sjö tímar.

Þátttaka í þeirri leið eykst. Í fyrra voru rúmlega 20 hlauparar í henni en þeir eru yfir 30 í ár og um helmingur þeirra erlendur. „Við höfum fengið athygli og umfjöllun þaðan með markaðssetningu. Strava var með sérgrein um hlaupið á sínum miðlum sem 1,5 milljón manna fylgist með. Í ár fjallar alþjóðlegt hlaupasamband um okkur á sínum miðlum.

Heimildamynd Chris Buckart hefur líka fengið athygli. Hægt er að horfa á hana í flugvélum Icelandair og við höfum verið í samskiptum við Bandaríkjamenn sem eru dolfallnir eftir að hafa séð hana,“ segir Olgeir.

Safna fé til styrktar Pieta samtökunum


Ekki er nóg með að hlaupið sjálft sé orðið sterkt í sessi. Hliðarviðburðir eru að verða til í kringum það. Eftir að hlaupinu er lokið verður efnt til stuttra tónleika klukkan 18:00 með Jóa P & Króla, sem einnig halda stærri tónleika í Fjarðarborg. Markmið minni tónleikanna er að afla fjár til stuðnings Pieta samtökunum – samtökum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, með frjálsum framlögum.

Olgeir segir styrktartónleikana falla vel að hugsjón Dyrfjallahlaupsins. „Pieta opnaði aðstöðu á Reyðarfirði í vor og við viljum vekja athygli á starfseminni. Við höfum alltaf sagt að Dyrfjallahlaupið sé ekki hart keppnishlaup, heldur áskorunarhlaup. Það er gaman ef bestu hlaupararnir mæta líka en fyrsta málið er að komast á ráslínuna og í mark, sama á hvaða tíma það er.“

Til stendur að vera með tónleikana undir berum himni, svo lengi sem veður leyfir. „Við erum með Fjarðarborg til vara enda verða tónleikarnir alltaf í nágrenni hennar. Það eru ýmsar skrautlegar hugmyndir um hvar þeir verða, eins og venjan er í kringum Fjarðarborg.“

Biðja um bætingaveður


Veðurspáin fyrir morgundaginn er ágæt, en sterk sól er ekki endilega besta hlaupaveðrið. „Við höfum fengið allan skalann. Í fyrra var hrikalega kalt og fólk var að krókna þegar það kom í mark. Við höfum líka fengið 25 stiga hita og þá þornar fólk.

Það er talað um bætingaveður, þegar er ekki sól. Á morgun er spáð 12-15 gráðum, smá andvara og jafnvel aðeins skýjuðu, þannig þetta lítur ágætlega út.“

Sumarhátíð um helgina


Af öðrum íþróttaviðburðum helgarinnar má nefna að frjálsíþróttamót Sumarhátíðar UÍA verður haldið á sunnudag. Hátíðin er með breyttu sniði sem helgast einkum af því að Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina í umsjá UÍA.

Mynd: Dyrfjallahlaupið/Þorsteinn Roy