Skip to main content

Tveir leikmenn Hattar fengu íslenskan ríkisborgararétt

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. júl 2025 10:19Uppfært 15. júl 2025 10:19

Tveir leikmenn körfuknattleiksliðs Hattar voru meðal þeirra 50 sem Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt í gær, áður en þingið fór í sumarfrí. Báðir hafa lengi búið á Íslandi.


Annars vegar er um að ræða David Guardia Ramos, hins vegar Nemanja Knezevic. David kom fyrst til Íslands árið 2018 og hefur verið hjá Hetti alla tíð en hann er fæddur á Spáni.

Knezevic hefur verið á Íslandi frá árinu 2017 en spilaði með Vestra á Ísafirði til ársins 2022 þegar hann skipti yfir í Hött. Hann er fæddur í Svartfjallalandi.

Fjöldi körfuknattleiksmanna sem fékk ríkisborgararétt vakti nokkra athygli. Vera má að þar spili inn í breyttar reglur Körfuknattleikssambands Íslands en frá og með næstu leiktíð mega aðeins fjórir erlendir leikmenn vera í hóp í hverjum leik. Af þessum má einn leikmaður koma utan Evrópu.

Knezevic var meðal þeirra sem nýverið gerðu nýjan samning við Hött um að spila með liðinu í fyrstu deild, en liðið féll úr úrvalsdeildinni í vor. Aðrir voru Matej Karlovic, Obie Trotter, Eysteinn Bjarni Ævarsson, Óliver Árni Ólafsson og Andri Hrannar Magnússon.

Þá samdi liðið nýverið við Ásmund Múla Ármannsson, 19 ára bakvörð sem kemur úr Stjörnunni. Daninn Gustav Suhr-Jessen hefur hins vegar skipt yfir í BC København í dönsku úrvalsdeildinni.

Eins hefur verið samið við nýjan Bandaríkjamann, Core‘von Lott. Sá er bakvörður, fæddur árið 1999. Hann spilaði í Kaiser háskólanum en útskrifaðist þaðan árið 2023 og hefur síðan spilað í Finnlandi, Slóvakíu og Litháen.