Skip to main content

Tvær landsliðskonur og þjálfarinn að austan

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. júl 2025 09:39Uppfært 01. júl 2025 16:23

Telma Ívarsdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir eru fulltrúar Austurlands í íslenska landsliðinu á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem hefst á morgun. Þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson er líka uppalinn Austfirðingur.


Áslaug Munda er fædd árið 2001 og á að baki 20 landsleiki. Hún ólst upp á Egilsstöðum og lék með Hetti í gegnum nær alla yngri flokkana. Fimmtán ára skipti hún hins vegar yfir í Völsung á Húsavík þegar fjölskylda hennar fluttist þangað tímabundið.

Þar varð framgangur hennar skjótur, sem leiddi til þess að Breiðablik fékk hana til sín árið 2018. Hún hefur spilað með liðinu síðan en valdi svo að fara í nám til Harvard í Bandaríkjunum. Höfuðmeiðsli sem hún hlaut þar, sem og önnur meiðsli sem hafa komið upp, hafa dregið úr þátttöku hennar síðustu ár, bæði með Blikum og landsliðinu.

Hún spilaði sjö leiki í fyrra og ellefu árið 2023. Hún útskrifaðist frá skólanum í vor og náði þremur leikjum áður en EM-törnin hófst. Fjölskylda hennar er flutt aftur í Egilsstaði og yngri systir hennar, Björg, er lykilmaður í úrvalsdeildarliði FHL.

Úr fremstu línu í markið


Telma er fædd árið 1999 og hefur spilað 12 landsleiki. Hún er alin upp í Neskaupstað og lék í gegnum yngri flokka með Fjarðabyggð. Hún spilaði nokkra leiki með meistaraflokki sumrin 2015 og 2016.

Hún er fræg fyrir að hafa á þessum tíma skipt um stöðu. Fyrstu meistaraflokksleikina spilaði hún sem framherji en var seinna sumarið orðin markvörður. Það vakti áhuga Breiðabliks sem fékk hana til sín árið 2016.

Telma hefur verið samningsbundin liðinu síðan þótt hún hafi einkum í byrjun verið lánuð til annarra liða. Eftir áramótin fór hún til Glasgow Rangers í Skotlandi en fékk fá tækifæri og kom aftur til Breiðabliks um það leyti sem íslenska deildin byrjaði.

Ekki notaðar í undirbúningsleikjum


Þær eru því tveir af þeim fimm leikmönnum landsliðsins sem skráðir eru í íslensk lið en alls eru 23 stelpur í hópnum. Óvíst er um hversu mikil tækifæri þær fá á mótinu, hvorug kom við sögu í síðasta æfingaleiknum, 1-3 sigri gegn Serbíu.

Auk þeirra er þjálfarinn Þorsteinn H. Halldórsson uppalinn Norðfirðingur. Hann spilaði með Þrótti þar til hann var 18 ára og skipti yfir í KR. Hann hefur þjálfað liðið síðan 2021 en áður hafði hann þjálfað Breiðablik.

Ísland leikur opnunarleik mótsins sem verður gegn Finnlandi klukkan 16:00 á morgun. Mótið fer fram í Sviss.

Myndir: KSÍ