Skip to main content

Þrír ungir blakarar hlutu afreksstyrki

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. ágú 2016 13:59Uppfært 09. ágú 2016 14:00

Þrír ungir íþróttamenn úr Þrótti Neskaupstað hlutu styrki úr Afrekssjóði Guðmundar Bjarnasonar á dögunum, en þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.



Sjóðurinn var stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar á síðasta ári og er tilgangur hans að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni.

Þrír íþróttamenn sóttu um styrk úr sjóðnum fyrir fyrstu úthlutun, en til þess að geta það verður viðkomandi að hafa öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti.

Styrkþegarnir eru þau María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Leggja þau öll stund á blak og hafa náð mjög góðum árangri í íþróttinni – Maria Rún hefur leikið með A-landsliði Íslands að undanförnu en þau Særún Birta og Þórarinn með unglingalandsliðum.

Næst verður úthlutað seint á þessu ári.

Frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári Geirsson