Skip to main content

Þrjú bronsverðlaun af Norðurlandamóti í bogfimi heim í Hérað

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2023 09:59Uppfært 18. júl 2023 10:01

Tveir drengir úr Skotfélagi Austurlands (SKAUST) gerðu sér lítið fyrir í byrjun mánaðarins og náðu sér í þrenn bronsverðlaun á Norðurlandameistaramóti ungmenna í bogfimi.

Þetta voru þeir Þórir Freyr Kristjánsson og Daníel Baldursson Hvidbro en þeir kepptu í sitt hvorri greininni; Þórir með berboga en Daníel með trissuboga. Mótið fór fram í Larvik í Noregi og þangað mættir allir þeir bestu í bogfimi á Norðurlöndunum og þar af nokkur fjöldi frá Íslandi.

Þórir náði ekki einungis bronsverðlaununum í U-18 einstaklingskeppni með berboga heldur bætti um betur og fékk jafnframt bronsið í liðakeppninni í þeim aldurshóp. Daníel keppti hins vegar í flokki U-21 og atti kappi við annan Íslending, Kaewmungkorn Yuangthong, í úrslitaleiknum um bronsið í einstaklingskeppninni. Hann hafði þó ekki erindi sem erfiði í það skiptið og endaði fjórði. Þeir félagar auk Önnu Maríu Alfeðsdóttur snéru svo bökum saman í liðakeppninni í sama flokki og náðu þar þriðja sætinu.

Þórir (í bláu) myndar bogann á mótinu í Larvik en hann kom heim aftur með tvenn bronsverðlaun. Mynd Bogfimisamband Íslands