Skip to main content

Þrír Norðfirðingar Evrópumeistarar í strandblaki

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. ágú 2025 10:31Uppfært 08. ágú 2025 10:41

Þrír leikmenn aldir upp í Þrótti Neskaupstað urðu um síðustu helgi Evrópumeistarar smáþjóða í strandblaki og einn til viðbótar komst á verðlaunapall hjá landsliðum 19 ára og yngri. Sex af átta keppendum Íslands komu úr Neskaupstað.


Ágúst Leó Sigurfinnsson spilaði í karlaflokki með Emil Diatlovic. Ágúst Leó er alinn upp í Neskaupstað sem spilaði síðasta vetur með KA. Þeir unnu lið frá Skotlandi í úrslitum, nokkuð örugglega 2-0 í viðureign sem tók aðeins 32 mínútur.

Strákarnir töpuðu aðeins einni hrinu í mótinu, gegn liði frá Andorra í átta liða úrslitum. Sá leikur tók 48 mínútur og var sá lengsti í karlaflokki. Liðin léku fyrst í þremur þriggja liða riðlum en síðan tóku við átta liða úrslit með útsláttarfyrirkomulagi.

Lið alfarið skipað Norðfirðingum vann kvennaflokkinn


Helena Kristjánsdóttir og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir urðu Evrópumeistarar í kvennaflokki. Helena er hjá Þrótti en Sóldís spilaði líkt og Ágúst Leó með KA síðasta vetur. Hrefna Ágústa Marinósdóttir, einnig úr Þrótti, var í hinu íslenska liðinu með Auði Pétursdóttur en þær urðu í þriðja sæti.

Mótið raðaðist reyndar þannig upp að íslensku liðin tvö lentu saman í undanúrslitum. Þar höfðu Helena og Sóldís Júlía betur. Þær unnu svo lið frá Írlandi í úrslitum 2-1 meðan Hrefna Ágústa og Auður unnu lið frá Færeyjum í leiknum um bronsið 2-0.

Hrefna Ágústa og Auður þurftu reyndar að hafa fyrir hlutunum fyrr í mótinu því þær töpuðu 2-1 fyrir liði frá Andorra í riðlinum. Sá leikur tók 53 mínútur og var sá lengsti hjá stúlkunum. Sama keppnisfyrirkomulag var í báðum flokkum. Leikið var í Dublin á Írlandi.

Svanur og Sölvi Hafþórssynir mynduðu hitt íslenska liðið í karlaflokknum. Þeir féllu út í átta liða úrslitum eftir tap gegn liði frá Andorra. Sigurliðanna bíður svo frekari vinna því þau áunnu sér sæti í Evrópumótinu á næsta ári.

Íslensku landsliðin ásamt þjálfara og fararstjóra eftir mótið í Dublin. Mynd: Blaksamband Íslands