Skip to main content

Þorbergur Ingi: Ég var alltaf sá sem gat hlaupið endalaust í boltanum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. mar 2017 08:57Uppfært 15. mar 2017 17:57

Langhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson frá Neskaupstað stefnir á þrjú langhlaup erlendis í ár en hann var nýverið valinn langhlaupari ársins 2016 á hlaup.is. Hann segir þá sem stunda langhlaup þurfa að hafa sérstakt geðslag.


„Það er ákveðið langhlauparaeðli sem býr í mér. Við erum oft hálfgerðir sérvitringar og maður þarf að hafa þetta langhlauparageð í sér til að nenna að fara út í alls kyns veðrum og vindum og hlaupa í nokkra klukkutíma,“ segir Þorbergur í samtali við Vikudag á Akureyri.

Þar hefur hann búið undan farin ár en hann bjó austur í Neskaupstað þegar hann byrjaði í langhlaupunum fyrir þrettán árum.

„Ég var mikið í fótbolta en svo fór ég hægt og rólega að skipta yfir í hlaup. Það hentaði mér miklu betur.

Hlaup er þrjóskusport og það höfðar til mín. Ég hef alltaf verið mikil úthaldsmaður og fann mig mjög vel á hlaupum. Í boltanum var ég alltaf sá sem var í besta forminu og gat hlaupið endalaust.“

Þorbergur stundar mikið löng utanvegahlaup og hefur keppt á alþjóðlegum mótum Þrjú eru fyrirhuguð í sumar, tvö á Ítalíu og eitt í Frakklandi sem er 100 km. Hann segist verja mörgum klukkutímum á viku í hlaupin og nýtir sér oft náttúru Eyjafjarðar til þess.

„Það er lítið mál að gleyma sér þegar hlaupið er í fallegri náttúru eða uppi á fjöllum. Þetta er líka ákveðin gerð af íhugun; að vera einhvers staðar uppi á fjöllum að hlaupa. Mér finnst alveg frábært að kúpla mér þannig út úr öllum amstrinu.“