Svæðisstöðvar breyta þjónustu við íþróttafélög
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. apr 2025 19:34 • Uppfært 07. apr 2025 19:40
Tveir starfsmenn eru komnir til starfa á svæðisstöð Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem þjónustar íþróttahreyfinguna á Austurlandi.
Svæðisstöðvarnar eru átta talsins, komið á fót með stuðningi barna- og menntamálaráðuneytisins. Austursvæðið nær yfir starfssvæði Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ).
Jóhanna Íris Ingólfsdóttir kom til starfa á Höfn um mitt síðasta ár en Erla Gunnlaugsdóttir á Egilsstöðum í desember. Þær eiga báðar feril innan hreyfingarinnar, Erla hefur þjálfað frjálsíþróttir og fimleika hjá Hetti auk þess að vinna fyrir UÍA meðan Jóhanna hefur verið formaður USÚ.
„Okkar mesti styrkleiki er að við erum að vinna ýmislegt það sem sjálfboðaliðar í íþróttahreyfingunni í gegnum árin hafa einfaldlega ekki haft tök eða ráð á að gera. Eins og til dæmis að taka stöðuna í hverjum einasta landshluta, greina hvar verið er að gera mjög flotta hluti og hvar ekki. Hvar nákvæmlega er greinileg þörf á aðstoð og ef aðstoð þarf þá eru boðleiðirnar orðnar mjög stuttar,“ segir Jóhanna um þeirra fyrstu verk í starfi.
Verkefninu er meðal annars ætlað að auka þátttöku barna úr jaðarhópum í íþróttum en heilt yfir að stuðla að aukinni iðkun. Erla og Jóhanna hafa lagt áherslu á að hitta sem flesta leiðtoga austfirskra íþróttafélaga og eru langt komnar í þeirri vinnu. Ákvarðanir um aðgerðir verða síðan teknar á grundvelli greiningarvinnunnar.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.