Stjórnendur Manchester United sagðir plotta í veiði á Vopnafirði
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. júl 2025 08:41 • Uppfært 18. júl 2025 08:49
Æðstu stjórnendur enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru sagðir hafa dvalið í vikunni á Vopnafirði og notað tímann til að ræða framtíðaráform félagsins. Þeir eru þar í boði Jims Ratcliffe sem undanfarin áratug hefur safnað jörðum í kringum laxveiðiár á svæðinu.
Frá þessu er greint í íþróttamiðlinum The Athletic. Þar segir að Omar Berrada, framkvæmdastjóri og Jason Wilcox, yfirmaður íþróttamála, hafi komið til Vopnafjarðar og dvalið með Ratcliffe, sem fer með ráðandi hlut í félaginu.
The Athletic tekur fram að þjálfaranum, Ruben Amorim, hafi verið boðið með en niðurstaðan orðið sú að mikilvægast væri að hann einbeitti sér að æfingum í Manchester. Sagt er að Ratcliffe hafi löngum komið sér upp þeirri venju að funda með stjórnendum sínum hingað og þangað um heiminn því honum þyki að mörgu leyti betra að komast að kjarnanum í viðskiptatengdum umræðum í afslappandi umhverfi heldur en á skrifstofunni.
Aðaltilgangurinn að ræða framtíð United
Ratcliffe er sagður vilja hafa lykilfólk á sama stað í eigin persónu þegar teknar eru stórar ákvarðanir, í þessu tilfelli um leikmannakaup. Þótt fjarskiptasamband sé víða takmarkað við árnar tókst hópnum í gær að ganga frá tilboði upp á 70 milljónir punda í framherjann Bryan Mbeumo, sem United hefur verið á höttunum eftir í sumar.
Í frásögninni kemur fram að þrímenningarnir hafi fundað reglulega síðustu daga en þess á milli hafi í það minnsta einhverjir úr hópnum veitt í ám Ratcliffe. Miðillinn segir að aðaltilgangur ferðarinnar hafi þó verið að eiga innihaldsrík samtöl um United, bæði fjármálastöðu félagsins og fótboltann sjálfan.
Þrímenningarnir hafa eflaust haft um nóg að tala þar sem síðasta leiktíð hjá United var sú versta í yfir 50 ár því liðið endaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Leikmannaviðskipti félagsins hafa gengið treglega það sem af er sumri.
Árleg loftbrú Ratcliffe
The Athletic segir að stjórnendurnir fari frá Vopnafirði áfram til Svíþjóðar þar sem United spilar fyrsta æfingaleikinn fyrir komandi keppnistímabil á morgun. Sem fyrri ár um þetta leyti hafa einkaþotur frá fyrirtæki Ratcliffe, Ineos, nánast haldið uppi loftbrú milli flugvallarins á Egilsstöðum og Englands.
Tvær þeirra fara frá Egilsstöðum í dag, önnur til Nice í Frakklandi en hin til vallar á sunnanverðu Englandi. Þeir vellir eru í nágrenni við bækistöðvar Ratcliffe og starfsemi hans.
Síðasta haust greindi Austurfrétt fyrst fréttamiðla frá því að Ratcliffe hefði í júlí í fyrra boðið meðeigendum sínum í United, Glazer-fjölskyldunni, í veiði, samveru og samtals í Vopnafirði. Austurfrétt var einnig fyrsti miðillinn sem á sínum tíma greindi frá því að Ratcliffe hefði keypt jarðir við laxveiðiár í Vopnafirði.