„Skíði hafa fylgt mér alla tíð“
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. apr 2025 18:48 • Uppfært 03. apr 2025 18:50
Hrefna Lára Zoéga var í byrjun þessa árs valin íþróttamaður Fjarðabyggðar fyrir árið 2024. Hún hefur náð ágætum árangri í vetur, meðal annars á Íslandsmótinu í skíðum sem haldið var í Oddsskarði um síðustu helgi.
Hrefna Lára er alin upp í Neskaupstað og hefur því æft undir merkjum Þróttar og Skíðafélags Fjarðabyggðar. Síðasta haust fór hún norður til Akureyrar í framhaldsskóla, meðal annars til að geta lagt betri rækt við skíðin.
„Oddsskarð er alls ekki verri staður en Hlíðarfjall en munurinn liggur í að hér fyrir norðan eru fleiri þjálfarar og þar með fleiri tækifæri og ekki síst að hér er ég með jafnöldrum á æfingum sem sýnir mér miklu betur hvar ég er stödd í mínu sporti en þegar ég er að æfa með hinum og þessum aldurshópum eins og raunin er mikið til heima á Austurlandi,“ segir hún.
Hrefna Lára snéri heim í Oddsskarð um síðustu helgi þegar Íslandsmótið í alpagreinum í flokki fullorðinna var haldið þar, en þetta er í fyrsta sinn sem Austfirðingar halda Íslandsmótið. Hrefna Lára varð fjórða í svigi, fimmta í stórsvigi og þriðja í alpatvíkeppni, það er samanlögðum árangri úr svigi og stórsvigi.
Þó að Hrefna Lára, líkt og önnur börn og ungmenni, hafi prófað eina og aðra íþróttina í gegnum tíðina hefur ekkert annað áhugamál náð að grípa hana frá unga aldri að hennar sögn. Skíðamennskan hafi verið númer 1, 2 og 3 frá því að hún muni eftir sér og sé það enn þann dag í dag.
„Ég kann svo sem enga sérstaka skýringu á því hvers vegna ég er svona hrifin af skíðaíþróttum. En áhuginn hefur fylgt mér allar götur frá því að ég fór fyrst með fjölskyldunni í brekkurnar á unga aldri og hann fylgir mér enn. Á meðan svo er vil ég endilega reyna að gera sem mest af þessu.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.