Sex frá Hetti í landsliðsúrvali í fimleikum
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. jún 2023 09:29 • Uppfært 07. jún 2023 09:32
Sex iðkendur frá Hetti voru í síðasta mánuði kallaðir til æfinga með íslensku landsliðunum í hópfimleikum. Æfingarnar eru liður í undirbúningi Íslands fyrir þátttöku í Evrópumótinu í hópfimleikum á næsta ári.
Til stendur að senda tvö lið í fullorðinsflokki, kvennalið og annað hvort karlalið eða blandað lið. Búið er að velja hópa til æfinga í aðdraganda mótsins. Fyrstu æfingarnar voru um miðjan maí með Oliver Bay, einum af þjálfurum danska landsliðsins. Hann er sérhæfður styrktarþjálfari en á æfingunum var áhersla á stökk á dýnu.
Þrír iðkendur frá Hetti komust í úrvalshóp 2 í landsliði fullorðinna, þau Andrés Ívar Hlynsson, Lísbet Eva Halldórsdóttir og Katrín Anna Halldórsdóttir.
Þá voru þrír iðkendur valdir í úrvalshóp drengja: Ásgeir Máni Ragnarsson, Bjartur Blær Hjaltason og Þorvaldur Jón Andrésson.
Búið er að skipuleggja frekari æfingar í ágúst og nóvember.
Drengirnir þrír kepptu á EM í fyrra með blönduðu liði. Mynd: Fimleikasambands Íslands/Ingvar