Skip to main content

Matthías Haralds: Langar að spila aftur hér fyrir þessa geðveiku áhorfendur

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. apr 2016 14:03Uppfært 14. apr 2016 23:25

Þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki segir að margt megi bæta eftir 3-2 sigur liðsins á HK í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins áður en til oddaleiksins kemur á föstudag. Liðið hafi sýnt mikinn karakter þegar á reyndi.


„Leikurinn var sveiflukenndur. Við áttum við vandræðum með móttökuna gegn ákveðnum leikmönnum. HK skoraði alltof mörg stig beint úr uppgjöfum.

Ég held að ég hafi eytt öllum leikhléunum á 14 ára frænku mína í hinu liðinu, Matthildi Einarsdóttur. Hún var erfið við okkur í uppgjöfunum.“

Liðin skiptust á að vinna hrinurnar fimm í gærkvöldi. Innan þeirra voru miklar sveiflur, HK stakk af í fyrstu hrinu en Þróttur snéri henni sér í vil. Þróttur vann einnig upp 6-10 forskot í oddahrinunni. Viðspyrnan hófst eftir að Matthías hafði tekið leikhlé.

„Eina sem ég sagði þeim var að hafa trú á þessu. Ef þær hefðu komið inn aftur og ekki haft trú á verkefninu þá hefði þetta verið búið.

María Rún var að fara í uppgjöf fyrir okkur og sendi nokkrar mjög góðar uppgjafir. Framlínan hjá HK var á sama tíma ekki rosalega sterk og við náðum að nýta það.“

Matthías þakkaði sérstaklega áhorfendum sem fylltu pallana og studdu Þrótt ákaft. „

„Þessi leikur var frábær skemmtun, fyrir áhorfendur. Kannski aðeins of spennandi fyrir þjálfara en þetta eru jöfn lið og sigurinn getur fallið hvoru megin sem er.

Við viljum vinna á föstudag því okkur langar að spila aftur fyrir þessa geðveiku áhorfendur. Ég er orðlaus yfir þessari frábæru stemmingu.“