Skip to main content

Körfubolti: Tvö skot í lokasókninni geiguðu þegar Höttur féll úr bikarnum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. des 2024 12:52Uppfært 09. des 2024 12:55

Höttur er úr leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 72-73 ósigur fyrir KR í 16 liða úrslitum í gær. Höttur vann boltann þegar 20 sekúndur voru eftir og fékk tvo skotfæri til að gera út um leikinn en þau klikkuðu bæði.


Tíu dagar voru síðan liðin mættust í úrvalsdeildinni, þá líka á Egilsstöðum. KR vann þann leik með þremur stigum, en hefði hæglega getað unnið stærra þá. Eftir það og tvo aðra tapleiki að undanförnu vildi Höttur komast á sigurbraut á ný.

Það gekk ágætlega í fyrsta leikhluta, Höttur átti góðan kafla þegar leið á hann og var 23-13 yfir að honum loknum. Hetti gekk hins vegar illa í öðrum leikhluta, skoraði eina körfu fyrstu fimm mínúturnar. Það var furðukarfa Davids Guardia, sem keyrði að körfunni og var kominn úr öllu jafnvægi því brotið var á honum, en náði að setja boltann í spjaldið og ofan í. David skoraði líka úr vítinu sem hann fékk. En Hetti tókst að losa um þegar leið á og halda forskotinu inn í hálfleik, 38-35.

Orri ótrúlegi


Heilt yfir spiluðu liðin fínan varnarleik. Hvorugt liðið fékk opin skot að því er heitið gat og þriggja stiga skotin voru fá samanborið við marga aðra leiki. Þegar á leið þriðja leikhluta losnaði aðeins um Hött, sem breytt stöðunni úr 44-39 í 59-42. Liði missti hins vegar aðeins einbeitinguna síðustu mínútuna og hana nýtti KR til að minnka muninn í 61-48.

Í fjórða leikhluta lenti Höttur á algjörum vegg í stöðunni 66-52, en þá voru sjö mínútur eftir. KR-ingar komu muninum undir tíu stig með fimm stigum í röð, en hættu ekki þar heldur jöfnuðu í 68-68. Þá hafði Orri Hilmarsson skoraði níu síðustu stig KR, sett niður þrjár þriggja stiga í röð.

Höttur átti lokasóknina


Adam Eiður Ásgeirsson svaraði þá með þriggja stiga skoti þannig Höttur náði frumkvæðinu á ný en KR jafnaði í 72-72 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Liðin skiptust á mistökunum þar til KR-ingar komu niður vítaskoti þegar 46 sekúndur voru eftir.

Höttur fór í sókn en missti boltann með 27 sekúndur eftir. KR-ingar náðu ekki að nýta sér það, Hattarmenn pressuðu á þann sem bar boltann upp og hann kastaði boltanum út af þegar 21 sekúnda var eftir. KR-ingar nýttu sér heimild til að láta skoða atvikið, töldu boltann hafa farið af Hattarmanni en dómararnir staðfestu ákvörðun sína.

Það var mikið í húfi, 21 sekúnda þýðir að liðið getur haldið bolta þannig lið sem er yfir getur látið tímann renna út en lið sem er einu stigi undir getur sett upp í síðasta skot. Kerfi Hattar gekk upp þannig að Justin Roberts fékk eitt af fáum alveg fríum þriggja stiga skotum sínum. Það klikkaði en hann náði frákastinu og gat komið boltanum aftur af körfunni. Það gekk heldur ekki þannig að klukkan rann út og það virtist taka KR-inga nokkrar sekúndur að átta sig á að þeir hefðu virkilega unnið.

Knezevic lykilmaður


Nemanja Knezevic var langbesti leikmaður Hattar í gær, skoraði 14 stig og tók 13 fráköst. Þegar hans naut ekki við voru Hattarmenn í vandræðum, náðu fáum fráköstum, sérstaklega í sókn og voru í vandræðum með að komast að körfunni. Hann var þannig til staðar meira og minna allan þriðja leikhluta þegar sem gekk sem berst en var hvíldur framan af þeim fjórða.

Gustav Suhr-Jessen skoraði 14 stig en þurfti til þess fullmargar tilraunir. Adam Eiður Ásgeirsson átti ágætan dag með 12 stigum og 5 fráköstum. Justin Roberts skoraði 11 stig en var aðeins með 20% nýtingu, þar af 1/9 eða 11% af þriggja stiga línunni.

Höttur spilar sinn síðasta heimaleik fyrir jól á fimmtudagskvöld þegar Álftanes kemur í heimsókn í úrvalsdeildinni. Vonandi verða allir leikmenn heilir, en bæði Obie Trotter og Roberts fengu harðar byltur í gær.