Körfubolti: Þriðji tapleikur Hattar í röð kom á móti Þór
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. des 2024 12:49 • Uppfært 06. des 2024 12:49
Höttur tapaði 106-84 fyrir Þór í Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Framúrskarandi hittni í þriðja leikhluta gerði gæfumuninn fyrir Þór.
Höttur byrjaði ágætlega en þegar leið á fyrsta leikhluta hrökk allt í baklás og Þór var yfir eftir hann, 29-20. Höttur átti ágætan annan leikhluta, var meira að segja aðeins yfir á tímabili, en Þór seig síðan fram úr aftur og var 53-48 yfir í háfleik.
Þór svínhitti úr þriggja stiga skotum í þriðja leikhluta meðan lítið gekk hjá Hetti og að honum loknum var munurinn kominn í um 20 stig, 82-63. Höttur reyndi að gera áhlaup en komst ekkert nær og að lokum vann Þór leikinn með 22 stigum.
Adam Heede-Andersen var stigahæstur hjá Hetti með 20 stig en Justin Roberts skoruðu 18. Aðrir voru undir tíu stigum. Allir leikmenn Hattar komu við sögu í leiknum og skoruðu.
Höttur er jafn ÍR og Val í 9. – 11. sæti með sex stig. Leikið er þétt í körfuboltanum því KR kemur í heimsókn í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar á sunnudag klukkan 17:00. Höttur á síðan heimaleik gegn Álftanesi í úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöld.