Skip to main content

Körfubolti: Tap í fyrsta úrvalsdeildarleiknum

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2022 08:46Uppfært 10. okt 2022 08:47

Höttur tapaði sínum fyrsta leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik 98-92 gegn Haukum í nýliðaslag í Hafnarfirði á föstudagskvöld. Haukarnir snéru leiknum á tveimur mínútum í byrjun seinni hálfleiks.


Höttur svínhitti úr þriggja stiga skotum í fyrri hálfleik en þegar yfir lauk var um helmingur stiga liðsins, 48 talsins, úr slíkum skotum. Í fyrsta leikhluta breytti Höttur stöðunni úr 25-17 í 27-28 og leiddi síðan 48-55 í hálfleik.

Eftir eina og hálfa mínútu í þriðja leikhluta var staðan 49-58 Hetti í vil. Haukar settu þá 15 stig gegn þremur á tæplega tveggja mínútna kafla og komust yfir í 64-61. Þeir héldu síðan áfram og komust í 72-63 áður en Höttur minnkaði muninn í 76-69 áður en leikhlutanum lauk. Haukar héldu síðan um tíu stiga forustu í gegnum leikhlutann.

Matej Karlovic varð stigahæstur hjá Hetti með 25 stig en Tim Guers skoraði 24. Liðið leikur sinn fyrsta heimaleik móti Njarðvík á fimmtudagskvöld.