Skip to main content

Körfubolti: Staðan versnar eftir fjórða tapleikinn í röð

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. des 2024 11:11Uppfært 13. des 2024 11:12

Höttur tapaði sínum fjórða deildarleik í röð – og þeim fimmta í öllum keppnum – þegar liðið tók á móti ÍR í gærkvöldi. Það versta við tapið er að ÍR var áður meðal neðstu liða deildarinnar en hefur breytt sinni stöðu á meðan fjarað hefur undan Hetti.


Höttur byrjaði á trúlega sínum besta kafla, skoraði níu fyrstu stigin. ÍR vann sig til baka en Höttur var yfir eftir fyrsta leikhluta, 15-13. Höttur var áfram yfir lungann úr öðrum leikhluta þótt forustan væri aldrei mikil. ÍR skoraði hins vegar síðustu tvær körfurnar fyrir leikhlé og fór inn í það með 33-37 forskot.

Höttur átti slæman kafla upp um miðjan þriðja leikhluta þegar staðan fór úr 49-48 í 51-58. Hún versnaði meir áður en hún skánaði því Hött minnkaði muninn í 59-65 áður en leikhlutanum lauk.

Erfitt lokaskot


Um miðjan fjórða leikhluta jafnaði David Guardia Ramos í 70-70 með þriggja stiga körfu. ÍR-ingar svöruðu með sex stigum og settu þar með Hött í erfiða stöðu. Liðið átti möguleika undir lokin, í stöðunni 79-80 var seinna vítaskotið dæmt af liðinu þar sem leikmaður þess fór of snemma inn í teig.

Höttur braut á ÍR í kjölfarið og gestirnir nýttu bæði vítaskotin sín. Höttur fékk þá sókn með 15 sekúndur til leiksloka. Hún mislukkaðist, Justin Roberts átti að taka ábyrgð á boltanum en ekki tókst að opna skot fyrir hann og tvisvar lenti hann of langt, það er inn fyrir þriggja stiga línuna. Að lokum þurfti Gustav Suhr-Jessen að reyna þriggja stiga skot en það geigaði.

Roberts var stigahæstur hjá Hetti í gær með 19 stig. Mesta framlagið var eins og oft áður frá Nemanja Knezevic, 11 stig og 18 af 40 fráköstum Hattar í leiknum.

Nýju mennirnir ekki komist í takt við liðið


Höttur hefur nú tapað fimm síðustu sínum leikjum í öllum keppnum. Fjórir þeirra hafa tapast tiltölulega naumt, tvisvar hefur Höttur getað unnið eða jafnað í lokasókn sinni. Í öllum hefur liðið þó verið skrefinu á eftir mestan hluta seinni hálfleiksins.

Sóknarleikurinn hefur verið hægur og ekki nóg um opin skot. Skotnýtingin endurspeglar þetta. Nýtingin úr teignum var ágæt í gær en utan þriggja stiga línunnar var hún 27%.

Höttur tók stóra ákvörðun í lok október þegar Courvoisler McCauley var látinn fara og Roberts tekinn inn í staðinn. Gedeon Demoke var einnig tekinn inn, til að breikka hópinn vegna meiðsla. Gedeon hefur enn ekki komist í takt við liðið og þótt Roberts eigi sína spretti, þá virðist hann ekki nógu hittinn utan þriggja stiga línunnar.

Eftir leikinn í gærkvöldi er Höttur í 10. sæti, jafn Íslandsmeisturum Vals sem eiga leik til góða í kvöld. ÍR og Álftanes eru tveimur stigum ofar, hið síðarnefnda á líka leik í kvöld og tekur á móti Hetti eftir viku. Fjórir sigrar ÍR í röð hafa dregið Hött niður í fallbaráttuna en á móti kemur að deildin er enn jöfn og skilin milli sætis í 2. deild og úrslitakeppni lítil.