Körfubolti: Magnaður viðsnúningur og sýning Obies í sigri á Álftanesi
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. des 2024 09:38 • Uppfært 20. des 2024 09:39
Höttur vann Álftanes 89-92 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gær. Úrslit leiksins virtust þó nánst ráðin í fyrsta leikhluta þar sem Egilsstaðaliðið lenti 20 stigum undir. En það kraflaði sig til baka og gott betur.
Liðin byrjuðu á sinni körfunni hvort en eftir það fór allt í baklás hjá Hetti og heimamenn skoruðu 20 stig í röð. Höttur vaknaði aðeins til lífsins síðustu þrjár mínútur sóknarlega því áfram gekk ekkert að stöðva Álftanes. Mestur fór munurinn í 22 stig áður en Höttur skoraði síðustu körfu leikhlutans og hélt þar með muninum í 20 stigum, 28-8.
Höttur náði muninum fljótt undir 20 stigin í öðrum leikhluta en fór ekki að saxa á ann af ráði fyrr þann miðjan. Staðan fór úr 40-22 í 43-35 og þar með var Höttur kominn inn í leikinn á ný. Fyrirliðinn Adam Eiður Ásgeirsson setti niður þrjár þriggja stiga körfur á þessum kafla. Álftanes átti á móti lokasprettinn og var yfir 54-42 í hálfleik.
Sá munur hélst í gegnum þriðja leikhluta og fátt benti til áhlaups Hattar. Liðið náði þó spretti síðustu mínútuna, skoraði síðustu sex stigin þar af átti Adam Heede-Andersen flautukörfu. Með því lagaðist staðan í 73-65 og í eina skiptið í leikhlutanum var munurinn undir 10 stigum.
Átján stig frá Obie
En þá var komið að Obie Trotter. Hann skoraði fyrstu körfuna með þriggja stiga skoti. Þar með var munurinn orðinn fimm stig og í raun allt opið. Hann bætti við annarri slíkri og Justin Roberts skoraði úr teignum áður en Álftanes tók leikhlé eftir tvær í stöðunni 75-73.
Leikhléið breytti litlu. Rúmri mínútu síðar var Höttur kominn yfir, 77-79 eftir tvær þriggja stiga körfur Obies í viðbót. Álftanes náði aðeins yfirhöndinni á ný en fimmta þriggja stiga karfa Obies í leikhlutanum kom Hetti í 85-89 þegar hálf mínúta var eftir af leiknum.
Næstu stig liðanna komu öll af vítalínunni. Álftanes fór í sókn þegar 10 sekúndur voru eftir og náði tveimur þriggja stiga skotum og skoti eftir frákast. Ekkert þeirra fór ofan í og Höttur fagnaði sigri.
Adam Heede-Andersen var stigahæstur hjá Hetti með 21 stig. Hann tók líka 8 fráköst, sem er mjög gott fyrir bakvörð. Obie var næstur með 20, þar af 18 í síðasta leikhlutanum og síðan Roberts með 18. Nemanja Knezevic var í villuvandræðum og spilaði innan við 20 mínútur. Í staðinn átti Gedeon Dimoke loks fínan leik, skoraði 13 stig og tók 5 fráköst.
Mikilvægur sigur fyrir jólafríið
„Ég er mest ánægður með hvernig strákarnir börðu sig saman eftir erfiða byrjun. Það kom þetta hjarta og þessi orka sem er frábært. Við breyttum aðeins. Spiluðum með minna lið, fleiri bakverði og hlaupa einfaldan leik. Það er örugglega mér að kenna að við lendum svona mikið undir í byrjun, að pæla í taktík og hvað við ætlum að gera,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í samtali við Vísi eftir leikinn.
Eftir fjóra tapleiki í röð var afar mikilvægt fyrir Hött að vinna. Liðið jafnaði þar með Álftanes og ÍR að stigum, þau hafa öll átta stig þegar deildin er hálfnuð í 8. – 10. sæti. Fyrir neðan eru Valur og Haukar en Höttur tekur á móti síðarnefnda liðinu í næsta leik, þann 3. janúar.