Skip to main content

Körfubolti: Liðsheildin small ekki í vetur

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. júl 2025 16:44Uppfært 01. júl 2025 16:48

Eftir besta kafla í sögu körfuknattleiksliðs Hattar, þrjú tímabil í röð í efstu deild karla, féll liðið um deild í vor. Þjálfari liðsins, Viðar Örn Hafsteinsson, segir stefnuna vera beint upp aftur og að áfram verði haldið að því markmiði að búa til stöðugt úrvalsdeildarlið á Egilsstöðum.


„Þetta bara small ekki hjá okkur. Það var oft nálægt og þá er ég ekki bara að tala um jafna leiki sem við töpuðum á lokamínútum, heldur að við smyllum sem alvöru liðsheild. Við náðum því ekki. Það er munurinn á þessu tímabili og þeim síðustu,“ segir Viðar Örn um hvað vantaði upp á í vetur.

Liðið byrjaði vel, vann Hauka örugglega á útivelli og svo Keflavík, sem hafði verið spáð góðu gengi, á heimavelli. En síðan fjaraði undan.

„Þótt við höfum unnið tvo fyrstu leikina, fengið skell og unnið síðan þar næsta leik þá leið okkur aldrei vel með það sem við vorum með í höndunum. Þetta voru góðir sigrar og Íslandsmótið er keppni í að vinna en ég var smeykur um að leikstjórnin og liðsheildin væri ekki alveg nógu góð. Þess vegna fórum við í breytingar sem ég held að hafi verið réttar, þótt við höfum ekki náð að finna hvernig allt passaði fyrir þennan leikmannahóp.

Það var kannski ekki best að fá inn í þennan hóp leikmann sem var alltaf á boltanum, það þarf að vera ákveðið flæði og ákveðnar týpur til að passa inn í hópinn og einhvern vegin náðum við ekki að velja réttu samsetninguna þetta árið.“

Skipt um leikmann í landsleikjahléi


Breytingarnar urðu þegar Courvoisier McCauley fór og Justin Roberts kom en út frá allri tölfræði, bæði þeirra og liðsins, þá virðist sú ákvörðun ekki hafa verið rétt

„Það er aldrei hægt að vita fyrr en eftir á en við vorum að fá leikstjórnanda í stað skotbakvarðar og ég held að það hafi verið rétt. Spurningin er til dæmis hvort við höfum gert það á réttu augnabliki, þetta var í landsleikjahléi og ég fjarverandi þegar nýr leikmaður kom inn. Það var ekki auðvelt fyrir hann og eitthvað sem við förum yfir.

Þetta eru báðir góðir körfuboltamenn en þetta er ekki spurning um það, heldur að þetta smelli og það getur verið erfitt fyrir hóp sem hefur verið lengi saman. Við eigum eftir að fara betur yfir þetta en við erum enn á að þetta hafi verið rétt ákvörðun.“

Orðin menning fyrir úrvalsdeildinni


Í fyrstu deildinni næsta vetur má búast við að yngri leikmenn fái fleiri tækifæri. Viðar Örn leggur samt áherslu á enginn afsláttur verði gefinn frá því markmiði að fara beint upp aftur. Hann segir fallið vera skref aftur á bak fremur en stóráfall í því markmiði að festa Hött í sess í úrvalsdeildinni.

„Ég held það sé hollt að við tökum úrvalsdeildinni ekki sem sjálfsögðum hlut. Ég er ekki á því að þetta sé hræðilegt heldur þurfum við að halda áfram að vinna. En fólkið hér er orðið góðu vant, að geta séð bestu lið landsins í hverri viku. Það er breyting sem hefur orðið á menningunni.

Þegar ég byrjaði að þjálfa meistaraflokkinn 2011, þá töpuðum við fyrir meðalliðum í fyrstu deild og fólk spurði hvort við ynnum ekki bara næsta leik. Nú töpum við fyrir Íslandsmeisturum Vals og fólk er svekkt. Fólki er ekki sama og þetta gerir eitthvað fyrir samfélagið.“

Viðar er aðstoðarþjálfari A-landsliðskarla sem spilar í ágúst í úrslitakeppni Evrópumótsins. Hann segir það spennandi verkefni. „Það er mikill heiður að fá að taka þátt í því, að fá að vinna með bestu leikmönnum landsins og gríðarlega flinkum þjálfara. Maður finnur að maður getur bætt sig og lært af þessu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Mynd: Daníel Cekic

Hlusta má á viðtalið í heild á Spotify