Skip to main content

Körfubolti: Höttur kvaddi úrvalsdeildina með sigri - Myndir

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2025 11:43Uppfært 28. mar 2025 11:50

Höttur kvaddi úrvalsdeild karla í körfuknattleik að sinni með 99-95 sigri á Álftanesi í gærkvöldi en liðin mættust á Egilsstöðum.Leikurinn var um leið síðasti leikur Sigmars Hákonarsonar fyrir félagið en hann er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu þess.


Sigmar var heiðraður fyrir leik af deildinni, hann fékk afhentan blómvönd og málverk af sér gert eftir ljósmynd. Hann tók í gærkvöldi þátt í sínum 340. leik fyrir félagið.

Leikurinn var jafn allan tímann, liðin skiptust ellefu sinnum á forustu, 14 sinnum var jafnt og mesti munur var tíu stig um miðjan þriðja leikhluta og entist stutt. Þess vegna gaf það tóninn að Höttur skyldi vera yfir, 26-24 eftir fyrsta leikhluta.

Margar villur voru helstu tíðindin úr þeim leikhluta. Liðin voru alls með sextán að honum loknum, þar af Höttur ellefu. Fjórar þeirra átti hinni ungi Óliver Árni Ólafsson sem fékk fjórar á innan við þremur mínútum í byrjun.

Sveiflur í þriðja leikhluta


Höttur fór síðan með helmingi meira forskot, 48-44 inn í leikhléið. Tvær þriggja stiga körfur undir lokin gerðu gæfumuninn, liðið náði 46-39 forkoti sem var mesti munurinn til þessa.

Sveiflur voru í þriðja leikhluta, fyrst með Álftanesi, síðan Hetti sem komst tíu stigum yfir, 68-58. Álftanes tók þá leikhlé og skoraði tíu stig í röð úr fjórum sóknum. Höttur svaraði með leikhléi og tókst að ná yfirhöndinni á ný en það var Lukas Palyza sem átti lokaorðið, setti þrist úr vinstra horninu þannig gestirnir voru 67-68 yfir fyrir loka leikhlutann.

Fjórar þriggja stiga körfur lögðu grunninn að sigrinum


Það var síðan rétt undir lokin sem leikurinn sveiflaðist endanlega með Hetti. Eftir að staðan var 75-74 komu fjórar þriggja stiga körfur í röð frá Hetti þannig að liðið var komið með yfirhöndina, 87-83 þegar tvær og hálf mínúta var eftir.

Við bættist fljótlega að Höttur var líka kominn í skotrétt og vítin nýttust ágætlega. Þegar staðan var orðin 97-88 og innan við mínúta eftir virtist sigurinn í höfn. En Álftanesi tókst að hleypa leiknum upp og koma muninum niður í 98-95 þegar níu sekúndur voru eftir. Gestirnir brutu þá á Nemanja Knezevic og sem betur fer setti hann niður seinna vítaskot sitt.

Hjá Hetti skoraði Knezevic mest, 21 stig auk þess að taka 13 fráköst. Adam Heede-Andersen átti trúlega sinn besta leik fyrir félagið, skoraði 18 stig þar af nokkur dýrmæt á lokakaflanum og gaf 8 stoðsendingar.

Höttur var formlega fallinn fyrir nokkrum vikum. Liðið endaði í ellefta sæti með 12 stig, fjórum stigum meira en Haukar en sex stigum minna en Þór Þorlákshöfn.

Stefna strax upp aftur


Eftir að ljóst var hvert stefndi fóru fleiri leikmenn Hattar að fá tækifæri, sem að einhverju leyti bendir til undirbúnings fyrir næsta tímabil. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, sagði eftir leikinn í gær að þau áform væru annars skammt á veg komin.

„Þetta eru strákar sem hafa verið duglegir að æfa en að þeir spili núna þýðir ekki að þeir séu að fara að spila á næsta ári, nema þeir leggi sig fram og bæti sig. Þótt við séum að fara niður ætlum við að halda standardinum uppi enda ætlum við að fara beint upp í úrvalsdeild. Það gerist ekki sjálfkrafa heldur með vinnu og með að bæta ofan á það sem gert hefur verið síðustu ár. En planið fyrir næsta tímabil er enn komið stutt.“

[widgetkit id="368" name="20250328: Körfubolti: Höttur - Álftanes"]