Skip to main content

Körfubolti: Höttur endanlega fallinn eftir slakar lokamínútur

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. mar 2025 10:01Uppfært 03. mar 2025 10:06

Lið Hattar er formlega fallið úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 97-75 tap gegn KR á laugardag. Allt fór í baklás hjá Hetti í síðasta leikhluta.


Staðan var óneitanlega svört fyrir Hött fyrir leik, því liðið þurfti að vinna alla fjóra leikina sem það átti eftir og vonast til að eitthvert þeirra liða sem eru næst fyrir ofan það myndi tapa, til að eiga möguleika á að halda sér uppi. Fyrir leikinn var tilkynnt að franski framherjinn Gedeo Dimoke hefði verið leystur undan samningi sínum við félagið.

Höttur byrjaði leikinn í Vesturbænum á laugardagskvöld þokkalega og leiddi 15-19 eftir fyrsta leikhluta. Liðið náði mest átta stiga forskoti snemma í öðrum leikhluta en því snéru KR-ingar sér í vil um miðbik hans og voru 41-38 yfir í hálfleik.

Höttur komst aftur yfir snemma í þriðja leikhluta, KR svaraði því en þriggja stiga karfa Nemanja Knezevic þýddi að Höttur var 60-61 yfir fyrir síðasta fjórðung.

Þar gekk þokkalega í tvær og hálfa mínútu, Höttur var þá yfir 71-72. Þá fóru hlutirnir í baklás, KR skoraði sjö stig í röð og bætti svo fljótlega við þannig það var komið í 81-73 þegar fjórar mínútur voru eftir.

Seinni hluta leikhlutans vildu skot Hattarmanna einfaldlega ekki ofan í og var sama hvaða leikmaður átti í hlut. Munurinn varð of mikill og síðustu mínútuna spiluðu yngri leikmenn. Obi Trotter var stigahæstur hjá Hetti með 18 stig.

Staðráðinn í að stýra liðinu beint upp aftur


Í viðtali við Stöð 2/Vísi eftir leikinn sagði Viðar Örn Hafsteinsson að Höttur hefði heilt yfir spilað vel en þegar á reyndi hefðu menn farið út úr leikskipulagi yfir í einstaklingsframtak. „Okkur gekk illa að loka leikjum og fjölmargir leikir í vetur voru eins og þessi. Hörkuleikir þar til í lokin þar sem við förum að gera hlutina öðruvísi en upp er lagt með.“

Hann sagði Hött setja stefnuna strax upp aftur. „Nú bara byggjum við upp lið aftur til þess að fara beint aftur upp. Við höfum gert það áður og þetta er enginn heimsendir fyrir körfuna á Egilsstöðum. Þar er gott og fjölmennt yngri flokka starf og vel haldið um körfuboltastarfið. Ég hef engar áhyggjur af því að þetta brjóti okkur á bak aftur og við mætum sterkir til leiks á næstu leiktíð.“

Hann kvaðst vera reiðubúinn að halda áfram þjálfun Hattarliðsins. „Ég stýri liðinu áfram, ekki nema að ég verði rekinn. Ég á ekki von á því. Ég hef enn ástríðu fyrir þessu starfi og er staðráðinn í að koma liðinu aftur í deild þeirra bestu.

Höttur á heimaleik á fimmtudagskvöld gegn Þór Þorlákshöfn.