Körfubolti: Fyrsti sigur Hattar á almanaksárinu
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. mar 2025 07:07 • Uppfært 06. mar 2025 23:07
Höttur vann í gærkvöldi Þór Þorlákshöfn 103-95 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Frábær fjórði leikhluti skóp fyrsta sigur Hattar á þessu ári. Sigurinn kemur þó fullseint þar sem liðið er þegar fallið.
Bandaríkjamaðurinn Justin Roberts var ekki með í gær vegna meiðsla. Hann hefur hins vegar aldrei komist almennilega í takt við liðið síðan hann kom í nóvember og heldur verið dregið úr spilatíma hans. Í fjarveru hans í kvöld stigu aðrir leikmenn upp, einkum fyrirliðinn Adam Eiður Ásgeirsson.
Adam Eiður var sjóðheitur í fyrsta leikhluta, setti niður öll skot sín og skoraði 14 stig. Höttur leiddi eftir fyrsta leikhluta, 30-28 og áfram inn í hálfleik, 62-58. Eins og tölurnar bera með sér var mikið sótt en minna varist.
Höttur átti slæman þriðja leikhluta og Þór var 72-82 yfir þegar tvær mínútur voru eftir af honum. Mustapha Heron fékk þá sína aðra tæknivillu, þessa fyrir brot á Obi Trotter, og þar með brottvísun. Þór fór þó með 75-84 forskot inn í lokaleikhlutann.
Höttur kom sér inn í leikinn með tveimur þriggja stiga körfum, fyrst frá Eysteini Bjarna Ævarssyni, síðan Nemanja Knezevic sem breyttu stöðunni úr 81-88 í 87-88. Höttur komst svo yfir 95-94 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir.
Þá tókst Hattarmönnum að loka á Þórsara en áttu sjálfir þrjár flautukörfur, tvær úr hálf vonlausum færum. Þar með sigldu þeir heim sínum fyrsta sigri síðan 17. desember. Taphrinan hefur þýtt að liðið er fallið en tækifæri er enn til að ljúka tímabilinu með sæmd.
Adam Eiður var stigahæstur hjá Hetti með 24 stig en Knezeciv þar næstur með 21 stig, auk þess sem hann tók 11 fráköst.