Skip to main content

Körfubolti: David Ramos í þriggja leikja bann

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. apr 2024 10:26Uppfært 22. apr 2024 10:36

David Guardia Ramos, leikmaður körfuknattleiksliðs Hattar, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann fyrir að hafa sparkað í leikmann Vals í leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts karla síðasta fimmtudagskvöld.


Leikmennirnir lentu í rimmu um miðjan annan leikhluta. Frank Booker, leikmaður Vals, sló til Davids í baráttu um frákast. David féll í gólfið en þar sem hann lá á bakinu sparkaði hann í áttina að Frank og hitti í klof hans. Samkvæmt leikskýrslu fékk Frank villu fyrir sinn gjörning en David var umsvifalaust vísað úr húsinu.

Aga- og úrskurðarnefnd tók málið til meðferðar í gær. Samkvæmt tilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands byggir aganefndin ákvörðun sína á d-lið 13. greinar reglugerðar sambandsins um agamál.

Þar segir að hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks skuli dæma viðkomandi í að minnsta kosti þriggja leikja bann. Víðtækari heimildir eru til staðar hafi atlagan alvarlegri afleiðingar.

Þetta þýðir að David missir af fjórða leik Hattar og Vals sem leikinn verður í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Þar sem Valur hefur unnið tvo leiki gegn einum þarf Höttur á sigri að halda til að knýja fram oddaleik, sem yrði spilaður í Valsheimilinu á fimmtudagskvöld. David verður einnig í banni þar ef liðsfélagar hans vinna í kvöld.