Skip to main content

Körfubolti: Aðeins kraftaverk getur orðið bjargað Hetti

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. feb 2025 10:52Uppfært 14. feb 2025 10:52

Höttur er enn án sigurs á þessu almanaksári í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Í gærkvöldi tapaði liðið á heimavelli fyrir Stjörnunni 86-89. Gestirnir snéru við leiknum í blálokin.


Leikurinn var jafn allan tímann sem sést að eftir þrjá leikhluta af fjórum var munurinn eitt stig. Fimmtán sinnum var jafnt í leiknum og tuttugu sinnum skiptust liðin á forustu.

Stjarnan leiddi 17-18 eftir fyrsta leikhluta en í hálfleik var Höttur yfir 47-46. Liðið náði því með góðum endaspretti, komst yfir með 7-2 kafla.

Höttur leiddi í þriðja leikhluta lengst af. Stjörnumenn voru nokkuð mistækir í sóknarleiknum í kvöld en Hattarmenn líka grimmir í vörninni, stálu boltanum alls tólf sinnum. Eftir leikhlutann var Höttur 66-65 yfir.

Höttur byrjaði betur í fjórða leikhluta, var 74-65 yfir eftir þrjár mínútur. Það var mesti munur í leiknum. Stjarnan gerði þá áhlaup, lagaði sóknarleikinn verulega og Höttur missti nokkur skot.

Lokafæri Hattar


Höttur fékk sín færi á lokasekúndunum. Liðið náði boltanum eftir að seinna vítaskot Matej Karlovic geigaði þegar um 20 sekúndur voru eftir og hefði því getað haldið boltanum og leitað að færi því forskot Stjörnunnar var eitt stig. Gustav Suhr-Jessen fékk ágætis þriggja stiga færi úr vinstra horninu og lét vaða en hitti ekki þegar 15 sekúndur voru eftir.

Stjarnan náði boltanum og Hattarmenn brutu með 11 sekúndur eftir af klukkunni. Shaquille Rombley setti bæði skotin ofan í. Höttur hafði því tækifæri á að jafna en tókst ekki að skapa almennilegt þriggja stiga skot til að jafna.

Matej Karlovic var stigahæstur Hattar með 18 stig þrátt fyrir að spila aðeins 18 mínútur. Sérstaklega sóknarlega mætir annað Hattarlið til leiks þegar hann er með. Justin Roberts skoraði 17 stig.

Hver er staða Hattar?


Úrslitin þýða að Höttur verður að vinna alla þá fjóra leiki sem eftir eru og vonast til að einhvert þeirra fjögurra liða sem eru átta stigum fyrir ofan, annað en Keflavík, tapi öllum sínum leikjum til að eiga möguleika á að hanga í deildinni.

Það eina góða er að það eru nokkurn vegin liðin sem Höttur á eftir, samanborið við að síðustu heimaleikir hafa verið við topplið deildarinnar. Frammistaða eins og í gær, sem var sérstaklega lipur sóknarlega, hefði dugað til að vinna flest önnur lið.

„Ég veit ekki hvort fjórir sigrar duga til að bjarga okkur frá falli en ég sé von þegar frammistaðan er svona. Þannig við ætlum okkur að halda áfram að skrifa söguna. Það kemur nýr kafli í henni, sama hvort hann er skemmtilegur eða leiðinlegur. Líkurnar eru ekki með okkur en við gefa þessu séns og halda áfram á fullu gasi,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.