Knattspyrna: Tíu mörk skoruð í leik Spyrnis
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. maí 2025 11:54 • Uppfært 26. maí 2025 12:02
Markaregn var hjá Spyrni sem vann Úlfana 8-2 í B riðli 5. deildar karla um helgina. Eggert Gunnþór Jónsson náði sögulegum áfanga en því miður tapaði KFA sínum leik. FHL varð fyrir blóðtöku með meiðslum í síðustu viku og tapaði leik sínum um helgina.
Spyrnir spilaði heima gegn Úlfunum um helgina. Gestirnir komust merkilegt nokk 1-0 yfir og minnkuðu muninn í 3-2 rétt fyrir leikhlé en Spyrnismenn nýttu uppbótartímann til að skora fjórða mark sitt og endurheimta tveggja marka forskotið.
Heiðar Logi Jónsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og þeir Hrafn Sigurðsson og Arnór Snær Magnússon sitt markið hvor. Í seinni hálfleik skoruðu þeir Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson, Eyþór Atli Árnason og Hilmir Hólm Gissurarson.
FHL tapaði 0-4 fyrir Þrótti Reykjavík í Bestu deild kvenna en leikið var á Reyðarfirði í gær. Þróttur skoraði tvö mörk í hvorum hálfleik og fór illa með FHL að því leyti að liðið skoraði bæði rétt fyrir leikhlé og strax eftir það.
Það voru þó ekki verstu fréttir vikunnar fyrir FHL. Staðfest var fyrir leik að leikstjórnandi liðsins, Aida Kardović, hefði slitið krossband í hné. Hún verður ekki meira með í sumar. Gleðilegri fréttir eru hins vegar þær að kantmaðurinn Calliste Brookshire var valin í gríska landsliðið.
Eggert Gunnþór Jónsson, spilandi þjálfari KFA, náði þeim áfanga að spila deildarleik númer 400, þegar taldir eru leikir bæði hérlendis og erlendis. KFA tapaði þó leik sínum við Hauka í Hafnarfirði í annarri deild karla um helgina, 2-1. Patrekur Aron Grétarsson skoraði mark KFA á 71. mínútu.
Höttur/Huginn tapaði fyrir Víði á heimavelli. Bjarki Fannar Helgason skoraði fyrir Hött/Huginn strax á annarri mínútu en gestirnir jöfnuðu tæpum tíu mínútum síðar. Þeir komust svo yfir snemma í seinni hálfleik og innsigluðu sigurinn tíu mínútum fyrir leikslok.
Mynd: Unnar Erlingsson