Skip to main content

Knattspyrna: Spyrnir sótti fjögur stig suður

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jún 2025 08:21Uppfært 10. jún 2025 08:23

Spyrnir var það austfirska lið sem gekk best um hvítasunnuhelgina en liðið náði fjórum stigum út úr tveimur leikjum á höfuðborgarsvæðinu. Karlalið Einherja lék sinn fyrsta leik í Íslandsmóti í þrjú ár.


Fyrri leikur Spyrnis var gegn SR og endaði með 4-4 jafntefli. Arnór Magnússon skoraði tvö mörk, Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson eitt og Helgi Magnús Gunnlaugsson eitt.

Á sunnudag spilaði liðið móti Þorláki og vann þann leik 0-4. Arnór og Steinþór Hrímnir skoruðu aftur auk þess sem Gabríel Daníelsson skoraði í lokin en eitt markanna var sjálfsmark. Spyrnir er við topp B-riðils fimmtu deildar eftir að hafa leikið fjóra leiki.

Í utandeild KSÍ spilaði Einherji sinn fyrsta leik í eiginlegri deildakeppni frá árinu 2022. Leikurinn við Afríku fór ekki vel af stað, því heimaliðið komst í 3-0 áður en Helgi Már Jónsson skoraði fyrir Einherja í lok fyrri hálfleiks. Aðalsteinn Björn Þórðarson bætti við marki í seinni hálfleik en Afríka skoraði þar líka og vann 4-2.

Í annarri deild karla tók KFA á móti Gróttu í hörkuleik á SÚN-vellinum. Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir úr víti á 15. mínútu en gestirnir jöfnuðu tæpu kortéri síðar, líka úr víti. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik. Grótta komst yfir á 67. mínútu en Javier Munoz jafnaði á 78. mínútu. Seltjarnarnesliðið skoraði síðan sigurmark sitt í 2-3 sigri á fyrstu mínútu uppbótartíma.

Höttur/Huginn tapaði illa, 4-1, fyrir Ægi í Þorlákshöfn. Heimaliðið var 1-0 yfir í hálfleik en bætti síðan við þremur mörkum í þeim seinni. Þórhallur Ási Aðalsteinsson skoraði mark Hattar/Hugins úr víti á 70. mínútu. Höttur/Huginn er í neðsta sæti deildarinnar með tvö stig en KFA er í 8. sæti með sjö stig.

Að lokum tapaði FHL 6-0 fyrir Breiðabliki í úrvalsdeild kvenna. Von var á erfiðum leik fyrirfram því Breiðablik er í toppbaráttunni og hefur á köflum farið illa með mótherja sína. Sammy Smith, sem spilaði með FHL í fyrra, skoraði fyrsta mark leiksins. Breiðablik var síðan 2-0 yfir í hálfleik. FHL er neðst í deildinni og enn án stiga.

Mynd: Unnar Erlingsson