Skip to main content

Knattspyrna: Mikilvægur heimasigur KFA

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2025 10:16Uppfært 31. júl 2025 10:21

KFA vann í gær Hauka í annarri deild karla í knattspyrnu. Sigurinn kemur í veg fyrir að KFA sogist niður í fallbaráttuna að sinni. Höttur/Huginn sótti stig á Suðurnes.


KFA varð fyrir skakkaföllum strax á sjöttu mínútu þegar Matheus da Silva þurfti að fara út af meiddur. Liðið brást hins vegar vel við.

Marteinn Már Sverrisson skoraði mörk á bæði tíundu og elleftu mínútu. Haukar minnkuðu muninn á 19. mínútu en Hrafn Guðmundsson skoraði fimm mínútum fyrir leikhlé. KFA var þannig í góðri stöðu, 3-1 í hálfleik.

Haukar minnkuðu muninn á 60. mínútu en komust ekki nær og KFA landaði sigri í leiknum, sem var jafnframt fyrsti viðburðurinn í auglýstri dagskrá bæjarhátíðarinnar Neistaflugs.

KFA er eftir leikinn í áttunda sæti deildarinnar með 20 stig. Sigurinn var mikilvægur því tap hefði þýtt að KFA hefði verið að sogast niður í fallbaráttuna fyrir lokasprettinn.

Liðin tvö í fallsætunum mættust í Garði í gær þegar Víðir tók á móti Hetti/Huginn. Víðisliðið var komið í 2-0 eftir 20 mínútur en Hetti/Huginn tókst að jafna. Danilo Milenkovic minnkaði muninn á 49. mínútu og Genis Caballe jafnaði úr víti á 76. mínútu. Höttur/Huginn er í næst neðsta sæti með 13 stig, tveimur stigum á eftir Kára.

Mynd: Unnar Erlingsson