Skip to main content

Knattspyrna: KFA byrjaði á stórsigri

ÍþróttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2025 06:46Uppfært 05. maí 2025 06:46

KFA hóf keppni í annarri deild karla um helgina með 8-1 sigri á Kormáki/Hvöt. Höttur/Huginn gerði jafntefli á útivelli gegn Gróttu. FHL tapaði nýliðaslagnum í Bestu deild kvenna gegn Fram.


Unnar Ari Hansson kom KFA yfir strax á 5. mínútu en gestirnir jöfnuðu á 17. mínútu. Jacques Bayo, nýr framherji KFA sem fæddur er í Frakklandi en spilað hefur í neðri deildunum á Spáni, kom KFA aftur yfir og Patrekur Aron Grétarsson bætti í forskotið áður en einn gestanna fékk rauða spjaldið á 30. mínútu.

Ekki gerðist fleira markvert fyrr en á 66. mínútu þegar KFA skipti þremur nýjum leikmönnum inn á. Meðal þeirra var Hrafn Guðmundsson, 19 ára gamall leikmaður sem alinn er upp hjá Aftureldingu og spilaði með KR í úrvalsdeildinni í fyrra áður en hann skipti yfir í Stjörnuna þaðan sem hann var lánaður austur i vor.

Hann skoraði rúmri mínútu eftir að hann kom inn á og átt síðan eftir að fullkomna þrennuna áður en leiknum lauk. Bayo skoraði annað mark og Matheus Bissi komst einnig á blað í 8-1 sigri.

Höttur/Huginn hóf keppni á útivelli gegn Gróttu. Þórhallur Ási Aðalsteinsson kom Hetti/Huginn yfir á 57. mínútu. Liðið reyndi síðan að halda því en tókst ekki. Grótta jafnaði á lokamínútunni með marki varamanns sem kom inn um mínútu fyrr.

FHL tapaði sínum þriðja leik í röð í efstu deild kvenna þegar liðið beið lægri hlut í nýliðaslag gegn Fram, 2-0. Mörkin komu snemma leiks eða á 5. og 13. mínútu.