Knattspyrna: Höttur/Huginn upp úr fallsæti – í bili
Íþróttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. júl 2025 11:34 • Uppfært 08. júl 2025 11:34
Höttur/Huginn náði loks að lyfta sér upp úr fallsæti annarrar deildar karla með sigri á Kormáki/Hvöt. KFA vann sig upp í miðja deild með öflugum lokakafla gegn KFG.
KFA tók á móti KFG úr Garðabæ um helgina og byrjaði vel, þar sem Heiðar Snær Ragnarsson skoraði strax á 6. mínútu. KFG jafnaði en Heiðar Snær kom KFA aftur yfir á 18. mínútu.
Aftur jafnaði KFG og þannig var staðan þar til 15 mínútur voru eftir af leiknum. Þá kom Jacques Mben KFA yfir, Jawed Boumeddane skoraði fjórða mark liðsins á 85. mínútu og í uppbótartíma bætti Javier Munoz því fimmta við.
Höttur/Huginn spilaði við Kormák/Hvöt fyrir norðan og vann 0-3. Sæþór Ívan Viðarsson og Kristófer Páll Viðarsson skoruðu í fyrri hálfleik en Árni Veigar Árnason í þeim seinni.
Hver er staða KFA og Hattar/Hugins?
Eftir leiki helgarinnar er deildin hálfnuð. Árangur beggja austfirsku liðanna er undir væntingum en af úrslitum sumarsins er ljóst að deildin er mjög jöfn. KFA er í sjötta sæti með 14 stig og hefur unnið tvo leiki í röð. Upp í næsta lið fyrir ofan eru fimm stig, en þau lið eru í mikilli baráttu um að komast upp.
Að sama skapi eru fimm stig niður í Hött/Huginn sem í fyrsta sinn í langan tíma er ekki í fallsæti. Það er tæpt, liðið er með 9 stig líkt og Kári en betri markatölu.
Góður heimasigur Einherja
Í fimmtu deildinni tapaði Spyrnir fyrir KFR. Heiðar Logi Jónsson og Þór Albertsson skoruðu mörkin sitt í hvorum hálfleik. Spyrnir var 2-1 yfir þegar Arnór Magnússon fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu. Eftir það gengu andstæðingarnir á lagið. Í utandeildinni tapaði Neisti 6-0 fyrir Afríku. Cristian Catano, framherji Afríku, skoraði fimm markanna.
Í annarri deild kvenna vann Einherji góðan 2-1 heimasigur á Dalvík/Reyni. Ainhoa Fernandez kom Einherja yfir með marki á 23. mínútu en þurfti skömmu síðar að fara meidd af velli. Gestirnir jöfnuðu um miðjan seinni hálfleik en Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði sigurmarkið á 77. mínútu. Einherji er í níunda sæti með átta stig.
Mynd: Unnar Erlingsson